Bakþankar

Hárfár

Ég stend á tímamótum. Ég er komin á þann stað í lífinu að dóttir mín er komin með svo sítt hár að það er eiginlega nauðsyn að setja í það teygjur á hverjum morgni. Þar sem ég hef sjálf aldrei verið með sítt hár er ég í smá vandræðum, en hef gert gott úr þessu og set yfirleitt í hana staðlað tagl.

Stundum leyfi ég sköpunargleðinni að njóta sín. Ég hef nokkrum sinnum sett í hana tíkó. Þarf bara aðeins að æfa mig í að ná beinni skiptingu og tryggja að það sé jafn mikið hár í hvorum tíkarspena. Um helgina ákváðum við svo að bregða undir okkur betri fætinum og kíkja á tilboð í Smáralindinni. Það dugði því ekkert tagl eða tíkó. Nei, nú skyldi dóttirin skarta tveimur fléttum.

Með vandvirkni að leiðarljósi gerði ég eina fléttu. Með þolinmæði gerði ég hina. Útkoman var… ekki falleg. Þar sem þetta var nú í fyrsta skipti sem ég gerði tvær fléttur í hárið á barninu ákvað ég engu að síður að taka mynd og setja á Facebook. Viðbrögðin voru á eina leið: „Langar ofsalega til að segja að þetta sé mjög flott hjá þér – læt duga að hrósa fyrir viðleitni *hóst*", sagði ein. „Þetta kemur allt!" sagði annar. Þriðji setti inn tengil á umfjöllun um hárgreiðslu-námskeið fyrir feður.

Eiginlega veit ég ekki af hverju ég er svona léleg í þessu. Mamma mín er lærður hárgreiðslumeistari og starfaði sem slíkur í áraraðir. Hæfileikar hennar á þessu sviði hafa greinilega ekki borist áfram. Það er ekki hægt að segja að ég hafi aldrei reynt. Sem unglingur tók ég frí frá unglingavinnunni eitt sumarið og fór í launað starfsnám í Iðnskólanum. Þar nam ég tölvunarfræði, rafvirkjun og hárgreiðslu. Skemmst er frá því að segja að ég stóð mig verst í því síðastnefnda.

Dóttir mín var stolt af fléttunum sínum þennan daginn. Við urðum ekki fyrir neinu aðkasti í Smáralindinni en ég þarf að gera betur áður en hún fer með fléttur í afmælisboð. Þegar þú lest þessar línur er hins vegar líklegt að ég sé að flétta hana, eða sé nýbúin að því. Litlar stelpur þurfa nefnilega að vera fínar á afmælisdegi mömmu sinnar. Áður en hún fagnar þriggja ára afmælinu vonast ég síðan til að finna hárgreiðslunámskeið fyrir mömmur.






×