Tónlist

Squarepusher og James Blake spila á Sónar-hátíð

Raftónlistargúrúinn Squarepusher, enski tónlistarmaðurinn James Blake, þýsk-japanska tvíeykið Alva Noto & Ryuichi Sakomoto og þýski rafdúettinn Modeselektor stíga á svið á tónlistarhátíðinni Sónar í Hörpunni 15. og 16. febrúar á næsta ári. Einnig koma þar fram Gus Gus, Retro Stefson, Ólafur Arnalds og Gluteus Maximus.

"Þetta eru þeir fyrstu sem við kynnum til leiks. Okkur finnst þetta mjög sterk byrjunardagskrá fyrir fyrstu Sónar-hátíðina á Íslandi. Við eigum eftir að bæta við um fjörutíu listamönnum og plötusnúðum bæði innlendum og erlendum. Við munum klára endanlega dagskrá í lok nóvember eða byrjun desember,“ segir skipuleggjandinn Björn Steinbekk, sem er hæstánægður með að hin rótgróna Sónar-hátíð sé komin til Íslands. "Það er frábært að þeir skyldu velja Ísland og eiginlega alveg ótrúlegt.“

Miðað við dagskrána sem hefur verið tilkynnt mætti ætla að Sónar sé raftónlistarhátíð. Björn segir það ekki rétt því popp- og rokktónlist er líka hluti af henni. "Sónar er haldin í fjórum heimsálfum og selur yfir tvö hundruð þúsund miða á sínar hátíðir á hverju ári. Það er horft til hátíðarinnar sem brautryðjanda þegar kemur að því að kynna nýja og spennandi listamenn til sögunnar, ásamt því að mjög þekktir, bæði popp- og rokktónlistarmenn, hafa komið þar fram og gera það enn,“ segir Björn. Með þeirra sem hafa spilað á undanförnum tveimur hátíðum í Barcelona eru Fatboy Slim, New Order, Lana Del Rey, M.I.A. og The Human League.

Spurður út í muninn á Sónar og hina nýafstöðnu Airwaves segir Björn að Airwaves-hátíðin sé frábær hátíð sem hafi tekið þrettán ár að búa til. "Airwaves er kynning á íslenskri tónlist gagnvart erlendum plötufyrirtækjum og erlendum gestum. Á móti er Sónar tónlistarhátíð þar sem tónlistarmennirnir spila í sextíu til níutíu mínútur hver og einn. Þetta er meiri hátíð þegar kemur að því að njóta tónlistarinnar.“

Björn bætir við að stefnt sé á að vera með góða "off venue“, eða utan dagskrá, sem verður haldin samhliða Sónar-hátíðinni. Hægt er að kynna sér hátíðina nánar á heimasíðu hennar, sonarreykjavik.com.

Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpunnar, segir það gríðarlegt fagnaðarefni að fá Sónar-hátíðina í tónlistarhúsið. "Airwaves er nýbúið að vera hér í húsinu. Slíkar hátíðir eru geysilegur fengur fyrir þetta hús og partur af því sem sannar tilverurétt þess.“ freyr@frettabladid.is












Fleiri fréttir

Sjá meira


×