Menning

"Rosalegt áhættuatriði“

Una Sveinbjarnardóttir
Una Sveinbjarnardóttir
„Mér líður eins og ég sé að æfa Paganini," segir Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari sem leikur einleik í umræddum konsert á tónleikum Kammersveitarinnar annað kvöld. Hún segir það síst orðum aukið hjá Jóhannesi að einleikskaflinn sé erfiður.

„Hann er mjög erfiður en líka stórskemmtilegur og greinilegt að höfundurinn hefur verið mikill fiðluvirtúós," segir Una sem hefur æft verkið undanfarna tvo mánuði. „Þetta er gríðarleg fingraleikfimi og fer mjög hátt upp á fiðluna."

Sjálf hallast hún að því að verkið sé ekki eftir Vivaldi heldur Cattaneo. „Ég var að skoða á netinu aðra konserta eftir hann sem eru líka í a-dúr, eins og þessi. Það er merkilegt því þeir eru ekki ýkja margir konsertarnir frá þessum tíma sem eru í a-dúr. Cattaneo virðist hafa verið poppari síns tíma, greinilega mjög vinsæll og spilaður víða. Það er líka mikið af öfugum rytma í verkunum hans, sem er líka mikið notað í djassi, og mjög skrautlegur."

Una segir það mikil ábyrgð að leika opinberlega konsert sem hefur legið óbættur hjá garði í fleiri aldir en um leið ómetanlegt tækifæri.

„Þetta er auðvitað vandasamt; þetta er svolítið eins og að búa til „souffle" - mjög erfitt en ef það heppnast rennur það mjög ljúflega niður." En er hún búin að ná fullkomnum tökum verkinu?

„Neineinei," segir hún og hlær. „Þetta er rosalegt áhættuatriði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×