Karlakór Kaffibarsins, Bartónar, og kvennakórinn Katla blása til jólatónleika í Tjarnarbíói í kvöld. Tónleikarnir hefjast klukkan 20 og allur ágóði rennur til Barnaspítala Hringsins.
Þetta er í fyrsta sinn sem kórarnir sameinast á tónleikum. Kvennakórinn Katla er nýstofnaður og kemur fram í fyrsta sinn í kvöld. Kórinn Bartónar var stofnaður fyrir nokkrum misserum og hefur verið iðinn við tónleikahald víðs vegar um borgina. Bartónar hafa vakið mikla athygli fyrir líflegan flutning og glæsileika, að sögn meðlima, en prúð framkoma og herramennska eru öllum meðlimum skyldar samkvæmt siðareglum kórsins. Stjórnandi Bartóna er söngvarinn Jón Svavar Jósefsson. Stjórnendur Kötlu eru söngkonurnar Lilja Dögg Gunnarsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir. Hljómsveitin Cheek Mountain Thief kemur einnig fram á tónleikunum en samstarf hennar og Bartóna hefur vakið nokkra athygli. Kórinn syngur í tveimur lögum á nýrri plötu sveitarinnar og kom fram á tónleikum hennar á Airwaves á dögunum. Búast má við miklu stuði þar sem ætlunin er að koma áhorfendum í sannkallað jólaskap. Miðar kosta 1.000 krónur og fást í Tjarnarbíói eða á Kaffibarnum.
Menning