Djúpið er ein af fimmtán kvikmyndum sem bandaríska vefsíðan Deadline.com segir að sé líkleg til að komast í fimmtán mynda úrtak fyrir tilnefningarnar til Óskarsverðlaunanna. Tilkynnt verður um fimmtán mynda úrtakið á föstudaginn.
Úr því verða fimm myndir valdar í lokaúrtakið sem keppir um Óskarinn.
Í umfjöllun Deadline segir að leikstjórinn Baltasar Kormákur hafi þegar skapað sér nafn í Hollywood með spennumyndinni Contraband og að 2 Guns sé væntanleg frá honum með Mark Wahlberg og Denzel Washington í aðalhlutverkum.
Alls er 71 kvikmynd að keppa um þessi fimm Óskarstilnefningasæti. Meðal hinna myndanna fjórtán sem Deadline skrifar um eru hin franska The Intouchables, Amour, sem vann Gullpálmann í Cannes, A Royal Affair frá Danmörku og The Hypnotist frá Svíþjóð. Aðeins ein íslensk mynd í fullri lengd hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlaunanna. Það var Börn náttúrunnar árið 1992. -fb
