Hólmar Örn Eyjólfsson var með eindæmum óheppinn þegar hann fékk að líta beint rautt spjald í leik 1860 München og Bochum í þýsku B-deildinni í kvöld.
Leiknum lyktaði þó með 1-0 sigri Bochum en Kevin Scheidhauer skoraði markið á 10. mínútu. Sjö mínútum síðar fékk Hólmar rautt.
Hólmar Örn gerði þó ekkert af sér því hann var rekinn af velli fyrir brot liðsfélaga síns, eftir því sem kemur fram í þýskum fjölmiðlum. Marcel Maltritz braut á leikmanni 1860 sem var sloppinn í gegn en dómari leiksins rak Hólmar af velli.
Þetta er einkar svekkjandi fyrir Hólmar sem var nýkominn aftur í lið Bochum eftir að hafa tekið út þriggja leikja bann fyrir rautt spjald sem hann fékk í leik gegn Dresden skömmu fyrir vetrarfrí.
Hvort Hólmar Örn fái enn lengra bann nú á eftir að koma í ljós. Bochum er eftir sigurinn í tólfta sæti deildarinnar með 24 stig.
