Fótbolti

Gylfi frábær í sigri á Inter | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði eitt mark og lagði upp annað í 3-0 sigri Tottenham á ítalska stórliðinu Inter í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA.

Gylfi hefur spilað vel að undanförnu og hélt því sæti í sínu í byrjunarliði Tottenham. Hann þakkaði traustið með því að leggja upp fyrsta mark leiksins fyrir Gareth Bale, sem skoraði með skalla á sjöttu mínútu.

Gylfi var svo sjálfur á ferðinni á átjándu mínútu er hann fylgdi eftir skoti Jermain Defoe sem var varið. Gylfi stýrði knettinum í netið af stuttu færi.

Myndband af fyrstu tveimur mörkum leiksins má sjá með því að smella á hlekkinn efst í fréttinni.

Varnarmaðurinn Jan Vertonghen skoraði svo þriðja mark Tottenham í upphafi síðari hálfleiks með skalla eftir hornspyrnu Gareth Bale.

Tottenham spilaði frábærlega í kvöld og Gylfi var engin undantekning. Þetta var örugglega hans besti leikur í hvítu treyjunni síðan hann kom til félagsins í sumar og gekk hann af velli undir dúndrandi lófataki áhorfenda á White Hart Lane þegar honum var skipt af velli.

Inter fékk tvö dauðafæri í leiknum eftir að sóknarmenn liðsins sluppu í gegn, einir gegn Brad Friedel markverði. Í fyrra skiptið var skotið framhjá en í hitt varði Friedel vel. Tottenham sótti einnig stíft og fékk nokkur færi til að skora enn fleiri mörk.

Sigur Tottenham var aldrei í hættu í kvöld og liðið í góðri stöðu fyrir síðari leik liðanna á Mílanó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×