Enski boltinn

David Luiz: Feimnin heldur aftur af Oscari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Luiz og Oscar.
David Luiz og Oscar. Mynd/Nordic Photos/Getty
David Luiz, brasilíski varnarmaðurinn hjá Chelsea, hefur mikla trú á landa sínum Oscari en segir að miðjumaðurinn ungi þurfi að losna við feimnina ætli hann sér að verða einn af þeim bestu í heimi.

Oscar skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik með Chelsea sem var á móti Juventus í Meistaradeildinni en hefur síðan þá oft þurft að sætta sig við setu á bekknum ekki síst eftir að Rafa Benitez tók við.

„Ég reyni að hjálpa honum með feimnina á hverjum degi. Ég segi honum að hann sér stórkostlegur leikmaður sem hefur hæfileik til að gera gæfumuninn í hverjum leik. Ég segi honum að vera ánægður og treysta sínum fótboltahæfileikum," sagði David Luiz á blaðamannafundi fyrir leik Steuea Búkarest og Chelsea í Evrópudeildinni í kvöld.

„Sumir leikmenn þurfa svona hvatningu og mitt starf felst meðal annars í því að tala sjálfstraust í stráka eins og Oscar. Hann er bara svo feiminn en ég segi við hann að það þarf alvöru hæfileika til að spila hjá liði með bestu leikmenn í heimi. Hann þarf því ekki að vera feiminn að sýna sína frábæru hæfileika," sagði David Luiz.

„Hann er ungur strákur sem vill læra á hverjum degi. Hann er klárari með hverjum deginum og hefur getu til þess að gera út um leiki," sagði David Luiz.

Oscar er með 8 mörk og 9 stoðsendingar í 35 leikjum í ensku úrvalsdeildinni, enska bikarnum og Meistaradeildinni á þessu tímabili. Hann hefur komið inn á sem varamaður í 10 þessara leikja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×