Innlent

Hátt í sex þúsund greitt atkvæði utankjörfundar

Alls hafa 5775 kosið utankjörfundar á landinu öllu samkvæmt upplýsingum frá Bergþóru Sigmundsdóttur, yfirmanni utankjörfundaratkvæðagreiðslu, en það er mun fleiri en þegar kosið var til Alþingis árið 2009. Þá kusu 1207 utankjörfundar.

Bergþóra segir í samtali við Vísi að ýmislegt geti útskýrt þetta. Meðal annars varð mikill kippur í utankjörfundaratkvæðagreiðslum þegar fólki var gert kleift að greiða atkvæði í Laugardalshöll. Þá bendir Bergþóra á að einstaklingar sem búa erlendis geti núna kannað hvort þeir séu á kjörskrá áður en þeir greiða atkvæði í sendiráðum. Þannig hafi komið upp tilvik að einstaklingar hafi greitt atkvæði í nokkurn tíma án þess að gera sér grein fyrir því hvort þeir væru á kjörskrá. Það hafi ekki komið í ljós fyrr en atkvæðið var komið til Íslands.

Bergþóra segir að það sé mikilvægt að fólk viti að það geti kosið utankjörfundar hjá sínum sýslumanni. Það þarf ekki endilega að fara niður í Laugardalshöll. Þá er hægt að kanna hvort maður sé á kjörskrá á heimasíðunni kosning.is. Þar er einnig hægt að finna út hvar og hvenær maður getur greitt atkvæði utankjörfundar annarstaðar en í Laugardalshöll.

Spurð hvort góð þátttaka í kosningu utankjörfundar sé vísbending um að kjörsókn verði góð, svarar Bergþóra því til að svo þurfi ekki að vera. Þannig hafi verið gríðarleg þátttaka í utankjörfundaratkvæðagreiðslu fyrir forsetakosningarnar, eða um 25 prósent, en að lokum hafi tæplega 70 prósent kosið.

Kosningarnar fara fram 27. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×