Innlent

Einstaklingsframboðin ógild í nær öllum kjördæmum

Einstaklingsframboðin hafa verið úrskurðuð ógild í öllum kjördæmum landsins nema Reykjavíkurkjördæmunum í suðri og norðri þar sem enn á eftir að tilkynna hvaða framboð eru gild og hver ekki.

Alls vilja átján framboð bjóða fram til Alþingis en það er ljóst að eitthvað vantar upp á hjá sumum. Fjórtán framboð vantar fleiri undirskriftir, nema í Reykjavík suðri, en þar verður tilkynnt í hádeginu hvaða framboð þurfa að betrumbæta lista sína, og fá frambjóðendur því líklega frest til hádegis á morgun til þess að bæta úr því. Eins verður tilkynnt þá hvort einstaklingsframboð séu gild í kjördæminu.

Ástandið virðist misalvarlegt hjá framboðslistum sem vantar meðmælendur, en í Norðausturkjördæmi vantaði mest á þriðja tug undirskrifta á meðan aðra vantar aðeins nokkrar undirskriftir. Í Suðvesturkjördæmi gerði yfirkjörstjórn athugasemdir við undirskriftir fimm lista og hafa framboðin frest til hádegis að bæta úr því.

Formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi sagði í samtali við Fréttastofu að búið væri að úrskurða ellefu lista gilda í kjördæminu, en þar, eins og í flestum öðrum kjördæmum, hefðu einstaklingsframboðin verið dæmd ógild á grundvelli kosningalaga.

Alls vildu fimm einstaklingar að bjóða sig fram en fengu ekki. Þessi framboð voru flest í Suðurkjördæmi, svo var eitt í Suðvesturkjördæmi. Sturla Jónsson er einn þeirra.

Þegar haft var samband við hann sagðist hann enn eygja von um gilt framboð til Alþingis, þar sem hann bíður einnig fram K-lista Sturlu Jónssonar, sem er ekki einstaklingsframboð. Hann sagði ennfremur í samtali við fréttastofu að hann gerði ráð fyrir að ákvörðun kjörstjórna yrði kærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×