Innlent

Katrín fámál eftir fund með forsetanum

Stígur Helgason skrifar
Katrín Jakobsdóttir ræðir við blaðamenn eftir fundinn með Ólafi Ragnari Grímssyni á Bessastöðum.
Katrín Jakobsdóttir ræðir við blaðamenn eftir fundinn með Ólafi Ragnari Grímssyni á Bessastöðum. Mynd/ Daníel.
„Við fórum yfir stöðuna eins og hún lítur út - það var ekkert meira en það,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs eftir fund sinn með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, sem lauk nú rétt fyrir fimm.

Katrínu virtist koma á óvart að fá spurningar frá fjölmiðlafólki að fundinum loknum og baðst undan að svara þeim flestum.

„Staðan er bara mjög góð fyrir Vinstri græna,“ sagði hún aðspurð, en er flokkurinn á leið í ríkisstjórn?

„Það er ekkert slíkt til umræðu núna, við vorum bara að fara yfir stöðuna almennt.“

Katrín kvaðst ekki hafa heyrt í Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, eða Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í dag.

Þá svaraði hún því ekki hvort hún hefði tjáð forseta skoðun sína á því hver skyldi fá stjórnarmyndunarumboð.

Guðmundur Steingrímsson og Heiða Kristín Helgadóttir, leiðtogar Bjartrar framtíðar, eru nú sest á fund með forsetanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×