Innlent

Mælti með að Sigmundur fengi umboðið

Stígur Helgason skrifar
Eðlilegt er að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksinsverði falið umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar, að mati Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar. Þetta sjónarmið tjáði hann Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, á fundi sínum með honum á Bessastöðum nú fyrir skemmstu. Árni Páll sat hjá forsetanum í tæpa klukkstund.

„Ég sagði það sem ég hef áður sagt að mér finnst einboðið að formaður Framsóknarflokksins fengi stjórnmyndunarumboðið í ljósi þingkosninganna, hann er auðvitað stærsti sigurvegari  kosninganna,“ sagði Árni Páll að fundinum loknum.

Hann sagðist ekki hafa heyrt í Sigmundi eða Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, í dag, og kvaðst ekki búast við því að honum sjálfum yrði fengið stjórnarmyndunarumboð.

Aðspurður sagði hann ekki ætla að segja af sér formennsku í Samfylkingunni þrátt fyrir afhroð flokksins í kosningunum. „Nei, ég er nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar með mjög miklum meirihluta atkvæða.“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, situr nú á fundi með forsetanum og er búist við því að hún muni sitja þar til nálega fimm. Þá mæta Guðmundur Steingrímsson og Heiða Kristín Helgadóttir, leiðtogar Bjartrar framtíðar, til fundar, og að því loknu, klukkan sex, Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata.

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson funduðu með forseta fyrr í dag og sjá má myndskeið af fundi þeirra hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×