Innlent

Tæplega 30 þúsund búnir að greiða atkvæði utankjörfundar

Hrund Þórsdóttir skrifar
Um hádegisbilið í dag höfðu nær þrjátíu þúsund manns kosið utan kjörstaðar, mun fleiri en í síðustu Alþingiskosningum. Atkvæðagreiðslan gekk þó vel fyrir sig og stemmningin á kjörstað var góð.

„Þeim hefur fjölgað mikið sem kjósa utan kjörfundar og nú þegar tæpur sólarhringur er til Alþingiskosninga, hafa tæplega 30.000 manns skilað inn sínu atkvæði,“ segir Bergþóra Sigmundsdóttir, kjörstjóri utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Reykjavík.

Um hádegisbilið í dag fóru að myndast raðir í Laugardalshöllinni en atkvæðagreiðsla gekk þó fljótt og vel fyrir sig. Bergþóra Sigmundsdóttir, kjörstjóri utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Reykjavík segir mun fleiri kjósa utan kjörstaðar núna en fyrir síðustu Alþingiskosningar.

„Það virðist vera að fólki finnist ágætt að kjósa fyrir laugardag ef það skyldi nú fara eitthvert. Kannski finnst eldra fólki þægilegra að koma hingað heldur en á kjörstað og svo er bara fólk á faraldsfæti og það var líka frídagur í gær og það var þó nokkuð mikið að gera á miðvikudegi fyrir kjördag, sem er mun meira en verið hefur áður,“ segir Bergþóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×