Innlent

Fjölmiðlaumfjöllun skiptir ekki höfuðmáli

Rúmlega fimm þúsund fréttir hafa verið skrifaðar um kosningarnar frá síðustu átta vikur þar af er Samfylkingin með flestar fréttir eða tæplega tvö þúsund og sex hundruð talsins. Fæstu fréttirnar hafa verið skrifaðar um Framsókn af fjórflokknum en flokkurinn er engu að síður með mesta fylgið.

Fjölmiðlavaktin hefur tekið saman allar fréttir sem skrifaðar hafa verið um kosningarnar og þau fjölmörgu framboð sem nú bjóða fram til Alþingis. Rúmlega fimm þúsund fréttir hafa verið fluttar um framboðin á tímabilinu 1.mars til 23.apríl og oft er minnst á fleiri en eitt framboð í sömu fréttinni. Á þessu tímabili eru flestar fréttir um Samfylkingu og Vinstri græna enda eru þessir flokkar enn við völd og því kannski ekki óeðlilegt að þeir séu í eldlínunni.

Tæplega 2600 fréttir hafa verið fluttar um Samfylkinguna á umræddu tímabili. Vinstri grænir koma þar næst á eftir með tæplega 2200 fréttir. Tæplega 1900 fréttir hafa verið fluttar um Sjálfstæðisflokkinn og tæplega 1500 um Framsóknarflokkinn.

Færri fréttir hafa þó verið fluttar og skrifaðar um hin stjórnmálaframboðin.

Tæplega áttahundruð fréttir hafa verið fluttar af Bjartri framtíð og tæplega fjögurhundruð af Pírötum. Svo fækkar fjölda frétta enn frekar þegar kemur að smærri framboðunum. 

Gera mætti ráð fyrir því að sá flokkur sem mest væri fjallað um í fjölmiðlum í aðdraganda kosninga fengi e.t.v. meira fylgi fyrir vikið en svo er ekki.

Með tæplega tvö þúsund og sex hundruð fréttir mælist Samfylkingin samt sem áður með tæplega 15 % fylgi. En Framsókn hins vegar sem er með fæstar fréttir af fjórflokknum eða tæplega 1500 talsins mælist með mesta fylgið eða tæplega 26%. 

Það er því greinilegt að magn frétta og mikil umfjöllun í fjölmiðlum skiptir ekki höfuðmáli þegar afla á fylgis stjórnmálaflokka.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×