Innlent

Eðlilegt að Sigmundur fengi umboðið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Jakobsdóttir ræðir við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, á góðri stundu.
Katrín Jakobsdóttir ræðir við Árna Pál Árnason, formann Samfylkingarinnar, á góðri stundu. Mynd/ Vilhelm.
„Ég var búin að lýsa því yfir strax eftir kosningar að líklegast væri eðlilegast að Sigmundur fengi umboðið," segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, um atburði morgunsins. Annars vegar sé Framsóknarflokkurinn annar af stærstu flokkunum og hins vegar sé flokkurinn stærsti sigurvegarinn í kosningunum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, fékk stjórnarmyndunarumboð á Bessastöðum í hádeginu. Hann sagði við það tækifæri að hann ætlaði að ræða við formenn allra annarra stjórnmálaflokka sem fengu kjörna menn á þing. „Við höfum sagt að við erum reiðubúin til þess að setjast niður en öll ríkisstjórnarþátttaka hangir á málefnum,“ segir Katrín.

Katrín segir of snemmt að segja til um hvort flokkurinn geti fallist á hugmyndir framsóknarmanna um niðurfellingu skulda heimilanna. „Nú liggur ekkert fyrir nákvæmlega hvaða útfærslu þeir tala um í því. Þannig að það er væntanlega bara eitthvað sem við myndum fá að heyra frá þeim,“ segir Katrín.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar Framtíðar, sagði við Vísi fyrr í dag að flokkurinn myndi setja skýr skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórnarsamstarfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×