Innlent

Ný ríkisstjórn þarf að horfa til framtíðar

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs segir nýja ríkisstjórn þurfa að hafa breiða skírskotun og horfa til framtíðar. Hún segir áherslur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á skattalækkanir og niðurfellingu skulda ekki til þess fallnar að til að tryggja félagslegt réttlæti á Íslandi.

Eins og málin standa núna er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, að fara í stjórnarandstöðu. Aðspurð um það sem vænta má úr stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, bendir Katrín að verkefnin framundan séu ærin og á sama tíma sé staða ríkissjóðs viðkvæm.

„Þannig að blanda af miklum skattalækkunum eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað, skuldaniðurfellingum og atvinnuuppbyggingu sem ég tel hugsanlega geta gengið mjög á umhverfið, þá held ég að það sé ekki sú breiða skírskotun sem við þurfum á að halda," segir Katrín.

Þá ítrekar Katrín að á þessum tímapunkti sé nauðsynlegt fyrir ríkisstjórn og almenning að horfa til lengri tíma. Kosningaloforð Framsóknarflokks og sér í lagi Sjálfstæðisflokks um skattalækkanir samrýmist þeim áherslum ekki.

„Þá eru skattalækkanir upp á tug milljarða ekki endilega besta leiðin til að ná hér árangri út úr kreppu, þannig að við tryggjum hér jöfnuð og félagslegt réttlæti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×