Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ekki sé hægt að tala um það að stjórnarmyndunarviðræður séu hafnar með Sjálfstæðisflokknum, jafnvel þótt hann og Bjarni Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi hist í annað sinn í dag. Hann sagði í samtali við Reykjavík síðdegis í dag að aðalmálið væri að ná samstöðu um skuldamál heimilanna.
Sigmundur er búinn að hitta forystumenn allra flokka einu sinni, nema Bjarna Benediktsson. Hann sagði að hann og Bjarni hefðu hist í dag vegna þess að Bjarni hafi verið áhugasamur um að fá upplýsingar um útfærslur og tölfræði á hugmyndum framsóknarmanna við úrlausn skuldamálanna. Á þessari stundu liggur ekkert fyrir um það með hverjum Sigmundur ætlar í eiginlegar viðræður. Hann sagðist vonast til þess að ekki liði á löngu þar til eiginlega stjórnarmyndunarviðræður myndu hefjast en menn yrðu að sýna því skilning að þær gætu tekið nokkurn tíma.
Hann sagði að markmið sitt með því að heyra hljóðið í öllum hinum formönnum stjórnarflokkanna væri að fá tilfinningu fyrir því hvað þeim fyndist um verkefnin framundan og kanna hvort menn væru reiðubúnir að fara í alvöru viðræður um skuldamálin. „Vegna þess að það er til til lítils að fara í langar og miklar viðræður ef það er engin samstaða um skuldamálin," sagði hann.
Í Financial Times í dag er frétt þar sem haft er eftir heimildarmanni blaðsins, sem þekkir til kröfuhafa þrotabúa íslensku bankanna, að þeir séu til í samninga um kröfur sínar við íslensk stjórnvöld. Sigmundur Davíð segir að fréttin hafi ekki komið sér á óvart. „Þetta er í samræmi við það sem við höfum talað um. Menn hlytu að vilja þetta og þetta hlyti að vera kröfuhöfum í hag,“ sagði Sigmundur Davíð. „Þeir gera sér alveg grein fyrir því að þeir þurfa að gefa eftir, eins og við höfðum rætt í ksongingabaráttunni,“ segir hann.
Innlent