Fótbolti

"Flugið hingað var rándýrt"

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Kristjánsson er klár í slaginn.
Ólafur Kristjánsson er klár í slaginn. Mynd/Vilhelm
„Við erum með takmarkaðan fjárhag. Flugið hingað var rándýrt. Ég held að atvinnumennska sé ekki á dagskrá hjá okkur en við höldum í vonina," sagði Ólafur Kristjánsson laufléttur á blaðamannafundi í Kasakstan í gær.

Ólafur hafði verið spurður að því hvort Breiðablik myndi fá heimsklassa leikmenn til liðs við liðið tækist því að komast á næsta stig keppninnar.

Blikar mættu til Kasakstan í gær eftir nokkuð langt ferðalag. Tímamismunurinn á Íslandi og Kasakstan er heilar sex klukkustundir auk þess sem afar heitt er eystra.

Blaðamenn í Kasakstan spurðu Ólaf hvort einhverjir stuðningsmenn Blika hefðu fylgt liðinu.

„Því miður. Eftir leikina gegn Sturm var áhugi á að fylgja okkur. Hins vegar komu upp vandamál að fá vegabréfsáritun til Kasakstan. Óvíst var hvort Aktobe eða Hödd færi áfram í næstu umferð. Þar tapaðist dýrmætur tími."

Þjálfari Blika var einnig spurður að því hvort hann hefði teflt fram varaliði í síðasta deildarleik líkt og kollegar hans hjá Aktobe gerðu.

„Ungir leikmenn spiluðu þann leik en lið okkar er í raun byggt upp á ungum leikmönnum. Við stillum samt alltaf upp sterku liði því allar keppnir skipta okkur máli; Evrópudeildin, íslenska deildin og bikarkeppnin."

Leikur Aktobe og Breiðabliks hefst klukkan 16 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×