Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, var í ósamstæðum skóm á fundi með Barack Obama Bandaríkjaforseta og leiðtogum Norðurlandanna í Stokkhólmi í gær. Sigmundur Davíð var í spariskóm á hægri fæti en Nike íþróttaskóm á þeim vinstri sökum bólgu vegna sýkingar í vinstri fæti.
Ekki „fashion statement“
Þetta má sjá á mynd af Sigmundi með Obama og leiðtogum Norðurlandanna sem tekin var að loknum fundi þeirra í Stokkhólmi í gær. Þegar myndin er stækkuð sést glögglega að Sigmundur Davíð er í ósamstæðum skóm.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir í skriflegu svari að ráðherrann hafi neyðst að vera í íþróttaskóm á vinstri fæti vegna meiðsla. „Hann er svo bólginn vegna sýkingar að það var ekki annað í boði. Ekki fashion statement semsagt,“ segir Jóhannes. Ekki fengust nánari upplýsingar um meiðsl ráðherrans.
