Erlent

Hafís á Suðurskautinu í hámarki

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hafísinn umhverfis Suðurskautslandið mældist 19,47 ferkílómetrar seint í september.
Hafísinn umhverfis Suðurskautslandið mældist 19,47 ferkílómetrar seint í september. Mynd/NASA
Meðan hafísinn á Norðurskautinu bráðnar þá hefur hafísinn umhverfis Suðurskautslandið ekki mælst meiri frá upphafi mælinga árið 1981.

Hafísinn við Suðurskautið náði því seint í september að þekja 19,47 milljónir ferkílómetra, og náði þar með að slá metið frá árinu áður, en einnig þá mældist hafísbreiðan stærri en nokkru sinni áður.

Þetta kemur fram á mælingum bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA.

Walt Meier, jöklafræðingur á Goddard geimrannsóknarstöðinni bendir þó á að munurinn á milli ára sé ekki mikill: „Jafnvel þótt þetta sé met, þá er það aðeins 3,6 prósentum meira en meðaltalshámark áranna 1981-2010,” segir hann í tilkynningu á vefsíðu NASA. „Það þýðir að munurinn á þessu ári og meðalári er sá að ísbrúnin náði að meðaltali einungis um 35 kílómetrum lengra út á þessu ári.”

Ísbreiðan umhverfis Suðurskautslandið er jafnan stærst í september eða október á hverju ári, en dregst síðan saman og er minnst í febrúar eða mars.

Vísindamenn hafa lengi vitað að hafísbreiðan umhverfis Suðurskautslandið hefur verið að stækka, þrátt fyrir hlýnun jarðar. Þetta hefur valdið þeim nokkrum heilabrotum en á móti kemur að jökulhellan ofan á Suðurskautslandinu sjálfu hefur verið að þynnast nokkuð hratt, rétt eins og jöklar víðast hvar annars staðar á jörðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×