Lífið

Scarlett Johansson fær ekki tilnefningu til Golden Globe eftir allt saman

Spike Jonze, Scarlett Johansson og Joaquin Phoenix á kvikmyndahátíðinni í Róm fyrr í þessum mánuði.
Spike Jonze, Scarlett Johansson og Joaquin Phoenix á kvikmyndahátíðinni í Róm fyrr í þessum mánuði. AFP/NordicPhotos
Samkvæmt slúðurmiðlum vestanhafs kemur Scarlett Johanson ekki til með að hljóta tilnefningu til Golden Globe verðlaunanna fyrir leik sinn í kvikmyndinni Her í leikstjórn Spike Jonze, eins og áður hafði verið haldið.

Kvikmyndin hefur verið sterklega orðuð við tilnefningar til Golden Globe og Óskarsverðlauna í mörgum flokkum, en frammistaða Scarlett Johansson þótti standa upp úr í myndinni, þar sem hún leikur á móti Joaquin Phoenix.

Nú er hins vegar komið í ljós að hún mun ekki hljóta tilnefningu til Golden Globe verðlaunanna vegna þess að hún birtist aldrei á skjánum í myndinni. 

Mynd Jonze fjallar um mann sem verður ástfanginn af hugbúnaðarkerfinu í tölvunni sinni, sem Johansson ljáir rödd sína, og hefur hlotið lof marga gagnrýnenda vestanhafs - margir hverjir hafa lýst frammistöðu hennar í myndinni sem framúrskarandi. Þá höfðu margir gagnrýnendur orð á því að það væri magnað hversu kynþokkafullri henni tækist að vera, með röddina eina að vopni.

Þrátt fyrir að hljóta ekki tilnefningu til Golden Globe halda margir enn í vonina um að hún hljóti tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir hlutverkið. Johansson, sem er 29 ára gömul, var valin besta leikkonan fyrir hlutverkið á kvikmyndahátíðinni í Róm fyrr í þessum mánuði.

Johansson hefur aldrei hlotið Óskarstilnefningu, en hefur fjórum sinnum verið tilnefnd til Golden Globe-verðlauna, síðast fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Match Point, árið 2005.

Hefði hún hlotið tilnefningu til Golden Globe fyrir hlutverkið í Her hefði hún orðið sú fyrsta í sögunni til að hljóta tilnefningu til verðlaunanna þrátt fyrir að birtast aldrei í mynd í kvikmyndinni sem um ræðir.

Með fréttinni fylgir stikla úr kvikmyndinni Her.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×