Innlent

„Við viljum alls ekki að náttúruverndin komist að“

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra.
Í smáskilaboðum sem Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, sendi þingflokki Framsóknarflokksins þann 12. mars síðastliðinn, kemur fram að flokkurinn vilji tefja fyrir afgreiðslu náttúruverndarfrumvarps. Hann var þá þingflokksformaður. DV greinir frá málinu.

Í skilaboðunum segir:

„Sæl. Reiknað er með þingfundi í kvöld og nótt. Við þurfum að manna daginn, kvöldið og nóttina. Rúv, 3. umr. verður eitthvað fram eftir degi og síðan eru það ívilnanir vegna nýfjárfestingar 3. umr. Niðurgr. vegna húshitunar (kyntar veitur) 2. umr. kemur svo og þá kemur Náttúruverndin 2. umr. Við viljum alls ekki að náttúruverndin komist að og við þurfum að standa vaktina. kv. gb.“

Skilaboðin má sjá í skjalinu sem lekið var út úr gagnagrunni Vodafone í gærmorgun eftir að árás var gerð á vefsíðu Vodafone af tyrneskum tölvuhakkara.

Framsóknarmenn voru mjög mótfallnir náttúruverndarfrumvarpi þáverandi umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, og vildu eins og sjá má tefja fyrir afgreiðslu þess á þinginu. Lögin voru samt sem áður samþykkt þann 28. mars.

Núverandi ríkisstjórn hyggst afturkalla lögin en núverandi umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, lagði fram frumvarp þess efnis á Alþingi og er fyrstu umræðu um málið lokið. Þá munu gömlu náttúruverndarlögin frá árinu 1999 halda gildi sínu, þar til ný náttúruverndarlög sem Sigurður Ingi hyggst leggja fram taka gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×