Tónlist

Mikill erlendur áhugi á Sónar-hátíðinni

Björn Steinbekk hefur staðið í ströngu við skipulagningu Sónar-hátíðarinnar sem verður haldin um miðjan febrúar.
Björn Steinbekk hefur staðið í ströngu við skipulagningu Sónar-hátíðarinnar sem verður haldin um miðjan febrúar. fréttablaðið/stefán
Um 250 manns hafa keypt miða í Hörpu erlendis frá. NME og Guardian mæta.

Um 250 manns eru búnir að kaupa miða á Sónar-hátíðina erlendis frá, en hátíðin verður haldin í fyrsta sinn hérlendis í Hörpu 15. og 16. febrúar.

„Við erum mjög ánægðir með það. Það er bara frábært,“ segir skipuleggjandinn Björn Steinbekk. Einnig hafa um þrjátíu erlendir blaðamenn boðað komu sína á hátíðina, meðal annars frá The Guardian, The Sunday Times og NME.

Enn eru til miðar á Sónar fyrir Íslendinga en takmarkað magn er eftir samkvæmt Birni. „Við erum búnir að selja jafnmikið af miðum og við gerðum ráð fyrir.“

Danstvíeykið Pachanga Boys hefur bæst við hátíðina. Hljómsveitin gaf í fyrra út sína fyrstu plötu, We Are Sorry, með laginu Time sem var eitt það vinsælasta í fyrra í danstónlistargeiranum. Á meðal annarra sem hafa boðað komu sína eru James Blake, Squarepusher, Modeselektor, Kasper Björke, Ásgeir Trausti, Mugison, Gus Gus og Retro Stefson.

Notast verður við fjögur svið í Hörpu og verður spilað á þeim samtímis. Auk tveggja aðalsviða í Silfurbergi og Norðurljósum verður hluta af bílastæðinu í kjallara Hörpunnar breytt í næturklúbb þar sem hinir ýmsu plötusnúðar halda uppi stemningu. Eitt svið til viðbótar verður svo sett upp í Flóahorninu á fyrstu hæð Hörpunnar.

55 listamenn koma fram á þessum tveimur dögum. Dagskráin hefst báða dagana klukkan 18 og stendur yfir til klukkan þrjú um nóttina.

Einnig verður boðið upp á Sónar Cinema á hátíðinni þar sem tónlistartengdar heimildarmyndir verða sýndar í salnum Kaldalóni. „Fólk getur sest niður og horft á heimildarmyndir eða parta úr þeim og farið svo í aðra sali og skemmt sér. Þetta er líka ætlað fyrir fólk til að setjast niður og slappa af með popp og kók,“ segir Björn.

Stefnt er á að sýna myndir á borð við Berlin Calling, tónleikamyndin Stop Making Sense með Talking Heads, The Fearless Freaks um The Flaming Lips og myndir um hljómsveitina LCD Soundsystem og plötusnúðinn Richie Hawtin.

Hitað verður upp fyrir Sónar-hátíðina á Kex, Kaffibarnum, Kaffi Reykjavík, Harlem og á Volta dagana fyrir hátíðina og veita Sónar-armbönd forgang fram fyrir röð. Miðaverð á hátíðina er 14.900 krónur og er aðeins hægt að kaupa passa sem gildir á báða dagana. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×