Innlent

15 listar í framboði til Alþingis

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram í Laugardalshöll frá og með 15. apríl og fram að kosningadegi.
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla fer fram í Laugardalshöll frá og með 15. apríl og fram að kosningadegi. Fréttablaðið/Vilhelm
Ellefu listar bjóða fram til Alþingis í öllum kjördæmum í komandi þingkosningum. Alls verða fimmtán listar í boði, en listi Sturlu Jónssonar, Landsbyggðarflokkurinn og Alþýðufylkingin bjóða allir fram í einu kjördæmi og Húmanistaflokkurinn í tveimur.

Frestur til að skila inn framboðslistum rann út á hádegi í gær.

Framboðin sem bjóða fram á landsvísu þurftu að skila inn yfir tvö þúsund meðmælendum fyrir framboðslista sína. Farið verður yfir nöfnin og þau keyrð saman við Þjóðskrá Íslands. Einnig verða nöfn meðmælenda samkeyrð milli framboðslista, þar sem ekki er leyfilegt að skrifa undir hjá fleiri en einu framboði.

Endanlegur úrskurður um lögmæti framboðanna verður tekinn af landskjörstjórn, sem fundar á morgun. Nokkrir einstaklingar hyggjast bjóða fram sjálfstætt í einstaka kjördæmum. Afstaða til þeirra framboða verður einnig tekin af landskjörstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×