Gagnrýni

Fullur og frábær Mark

Stígur Helgason skrifar
Mark E. Smith ráfaði stefnulaust um sviðið og flæktist í snúrum.
Mark E. Smith ráfaði stefnulaust um sviðið og flæktist í snúrum. Magnús Elvar Jónsson
Tónlist. The Fall. All Tomorrow‘s Parties. Atlantic Studios.



Goðsögnin Mark E. Smith hafði greinilega fengið sér aðeins neðan í því áður en hann steig á svið með hugarfóstri sínu, síðpönksveitinni The Fall, á föstudagskvöldið – raunar svo mikið að hann átti í stökustu erfiðleikum með að byrja tónleikana, hvað þá klára þá.

Hann ráfaði stefnulaust um sviðið, flæktist í snúrum, fiktaði í hljóðfærum hinna meðlimanna og hálfa tónleikana sást hann ekki einu sinni – þá sat hann á bak við magnara, ýlfraði og umlaði á sinn frumstæða hátt í hljóðnemann og lét ekki sjá sig nema rétt þegar hann teygði sig í textablöðin.

Þetta var með öðrum orðum algjört „mess“, en maður komst ekki hjá því að hugsa að einmitt þannig ætti þetta að vera. Gestir skiptust í tvo hópa eftir því hvort þeim þótti þetta frábært eða glatað, og þessi gagnrýnandi er í fyrrnefnda hópnum.

Bandið var ógnarþétt og greinilega öllu vant, því að það lét ruglið í Smith ekki slá sig út af laginu, nema reyndar í lokin þegar hljómborðsleikarinn Elena Poulou hafði fengið sig fullsadda á honum og strunsaði af sviðinu. Allt í allt var þetta óvenjuleg en mögnuð upplifun og sérstaklega var það óvænt ánægja að heyra Sonics-klassíkina Strychnine í meðförum Smith og félaga.

Niðurstaða: Óvenjuleg en mögnuð upplifun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×