Gagnrýni

Leiðinleg lögga, sílikonkonur og aðrir englar

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Dauðaengillinn
Dauðaengillinn
Bækur: Dauðaengillinn Sara Blædel Þýðing: Árni Óskarsson og Magnús Sigurðsson Uppheimar



Dauðaengillinn er fimmta bók Söru Blædel sem kemur út á íslensku. Ég hef enga hinna lesið og það verður að segjast eins og er að það er dálítið erfitt fyrir óinnvígða að komast inn í söguna og aðstæður Louise Rick, aðallöggunnar. Það er stór galli, þar sem varla er hægt að ætlast til að allir lesendur hafi forsöguna á hreinu og viti allt um það sem á undan er gengið. Öllu verra er þó að aðalpersónan nær ekki slíkum tökum á lesandanum að hann langi sérstaklega til að lesa fyrri bækur, eins og oft er raunin í svona lögguseríum.



Plott Dauðaengilsins er dálítið langsótt og lýsingar í upphafi bókar á manninum sem „stoppar konur upp“ með sílikoni virka ansi langt frá veruleikanum. Þegar ofan á bætist eltingaleikur við mörg hundruð ára gamla helgimynd sem stolið var úr Ægisif í Tyrklandi áratugum fyrr, er manni skapi næst að leggja bókina frá sér dæsandi: „Nei, hættu nú alveg.“



Sem betur fer lætur maður það ekki eftir sér því eftir mjög hæga og langdregna byrjun verður sagan nokkuð spennandi og heldur athygli lesandans ágætlega allt til enda, þrátt fyrir þetta langsótta plott. Stærsti gallinn er persónusköpunin og dálítið flaustursleg afgreiðsla á þeim vandamálum sem að persónunum steðja. Louise Rick er frekar tilþrifalítil aðalpersóna og vekur ekki löngun lesandans til að kynnast henni betur. Hún er allavega enginn Carl Mörck eða Wallander, hvað þá Harry Hole, svo mikið er víst.



Það er mikið trend í dönskum krimmum að útmála ríka fólkið og yfirstéttina sem nokkurs konar djöfla í mannsmynd og ekki er brugðið út af þeim vana hér. Meðlimir Sachs-Smiths-fjölskyldunnar, sem plottið hverfist í kringum, eru hver öðrum meira dusilmenni og eiginlega staðalmyndir fremur en skáldsagnapersónur. Aðrar persónur eru betur dregnar og þegar upp er staðið reynist sú margbrotnasta af þeim auðvitað vera vondi kallinn. Það hefði maður átt að geta sagt sér sjálfur.



Blædel er heldur ekki besti penninn í bransanum og þrátt fyrir að tveir afburðaþýðendur, Árni Óskarsson og Magnús Sigurðsson, hafi farið höndum um textann er hann flatur og tilþrifalítill. Á köflum svo mjög að maður nærri roðnar fyrir hönd höfundarins. Þeir klóra þó í bakkann og reyna að bjarga því sem bjargað verður, en dugir skammt.



Niðurstaða: Ágætlega spennandi glæpasaga, en langsótt plott og dauflegar persónur draga hana nokkuð niður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×