Má drepa svarta í hettupeysum? Friðrika Benónýsdóttir skrifar 16. júlí 2013 07:00 Niðurstaða kviðdóms í máli George Zimmerman fyrir rétti í Flórída á dögunum hefur vakið hörð viðbrögð og mikla reiði. Zimmerman var sýknaður af því að hafa skotið ungan svartan pilt, Trayvon Martin, til bana á þeim forsendum að það hefði verið í sjálfsvörn. Engu að síður hafði margkomið fram í málflutningi fyrir dómi að Zimmerman, sem er sjálfboðaliði í nágrannavörslu í hverfinu sínu, hefði tekið það upp hjá sjálfum sér að veita Martin eftirför á þeim forsendum að honum hefði þótt Martin grunsamlegur. Hvað síðan gerðist er Zimmerman einn til frásagnar um en hann bar fyrir dómi að Martin hefði ráðist á sig og hann því átt þann kost einan að skjóta hann, jafnvel þótt Martin væri óvopnaður. Þessi rök sættist kviðdómurinn á og sýknaði Zimmerman af öllum ákærum. Bandarískt réttarkerfi er frumskógur sem erfitt er fyrir óinnvígða að átta sig á, en óhjákvæmilega hljóta að vakna grunsemdir um rasíska undirtóna þessarar niðurstöðu, einkum ef horft er til þess að fimm af sex konum í kviðdómnum voru hvítar. Þau rök að Zimmerman sé sjálfur úr minnihlutahópi, ættaður frá rómönsku Ameríku, og því sé ekki hægt að tala um kynþáttahatur í þessu samhengi halda engan veginn vatni, enda rasismi síst minni á milli minnihlutahópa en hjá hvítum. Hvernig sem málinu er snúið er erfitt að horfa fram hjá kynþáttaþættinum og skilaboðin sem dómurinn sendir út í samfélagið virðast nokkuð skýr: Það má drepa unga svarta menn í hettupeysum ef þeir eru að þvælast í hverfinu þínu eftir að dimmt er orðið og þér persónulega þykir þeir líta grunsamlega út. Það er auðvelt að yppa öxlum og hrylla sig lítillega yfir svona fréttum utan úr heimi. Hvað kemur okkur þetta við? Átök ólíkra þjóðarbrota í Bandaríkjunum eru ekki okkar mál. Þar liggur að baki löng og flókin saga sem við höfum engar forsendur til að setja okkur inn í, hvað þá fordæma. Hér á Íslandi búum við ekki við rasisma, hér eru engin fátæktarhverfi, hér eru allir góðir við alla. Eða hvað? Sú umræða sem sprottið hefur upp í kringum leyfisveitingu fyrir byggingu mosku í Reykjavík ber nú ekki vott um það að dýpra sé á kynþáttafordómum og -hatri hjá Íslendingum en öðrum þjóðum. Nema síður sé. Við höfum bara fram undir þetta verið það einangruð að lítið hefur reynt á umburðarlyndi gagnvart fólki af öðrum kynþáttum. Nú er einangrunin fyrir bí og þá spretta fordómarnir sem illgresi í rigningu. Og þarf hvorki langa né flókna sögu til. Sú árátta mannfólksins að skipta heiminum í „okkur“ og „hina“ hefur aldrei leitt neitt gott af sér. Og á tímum þegar þjóðerniskennd er opinber stefna stjórnvalda er sérstök þörf á því að halda vöku sinni, hugsa út fyrir túngarðinn og gera sér grein fyrir því að fordómar og hatur leiða aðeins til ills. Við erum nefnilega öll hinir í einhverju samhengi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Hvað gerðist þegar konan talaði? Jóna Hrönn Bolladóttir,Bjarni Karlsson Skoðun Geðheilsuskatturinn Halla Gunnarsdóttir Skoðun Fjölbreytileiki í íslensku skólakerfi: Erum við á réttri leið? Inga Sigrún Atladóttir Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun
Niðurstaða kviðdóms í máli George Zimmerman fyrir rétti í Flórída á dögunum hefur vakið hörð viðbrögð og mikla reiði. Zimmerman var sýknaður af því að hafa skotið ungan svartan pilt, Trayvon Martin, til bana á þeim forsendum að það hefði verið í sjálfsvörn. Engu að síður hafði margkomið fram í málflutningi fyrir dómi að Zimmerman, sem er sjálfboðaliði í nágrannavörslu í hverfinu sínu, hefði tekið það upp hjá sjálfum sér að veita Martin eftirför á þeim forsendum að honum hefði þótt Martin grunsamlegur. Hvað síðan gerðist er Zimmerman einn til frásagnar um en hann bar fyrir dómi að Martin hefði ráðist á sig og hann því átt þann kost einan að skjóta hann, jafnvel þótt Martin væri óvopnaður. Þessi rök sættist kviðdómurinn á og sýknaði Zimmerman af öllum ákærum. Bandarískt réttarkerfi er frumskógur sem erfitt er fyrir óinnvígða að átta sig á, en óhjákvæmilega hljóta að vakna grunsemdir um rasíska undirtóna þessarar niðurstöðu, einkum ef horft er til þess að fimm af sex konum í kviðdómnum voru hvítar. Þau rök að Zimmerman sé sjálfur úr minnihlutahópi, ættaður frá rómönsku Ameríku, og því sé ekki hægt að tala um kynþáttahatur í þessu samhengi halda engan veginn vatni, enda rasismi síst minni á milli minnihlutahópa en hjá hvítum. Hvernig sem málinu er snúið er erfitt að horfa fram hjá kynþáttaþættinum og skilaboðin sem dómurinn sendir út í samfélagið virðast nokkuð skýr: Það má drepa unga svarta menn í hettupeysum ef þeir eru að þvælast í hverfinu þínu eftir að dimmt er orðið og þér persónulega þykir þeir líta grunsamlega út. Það er auðvelt að yppa öxlum og hrylla sig lítillega yfir svona fréttum utan úr heimi. Hvað kemur okkur þetta við? Átök ólíkra þjóðarbrota í Bandaríkjunum eru ekki okkar mál. Þar liggur að baki löng og flókin saga sem við höfum engar forsendur til að setja okkur inn í, hvað þá fordæma. Hér á Íslandi búum við ekki við rasisma, hér eru engin fátæktarhverfi, hér eru allir góðir við alla. Eða hvað? Sú umræða sem sprottið hefur upp í kringum leyfisveitingu fyrir byggingu mosku í Reykjavík ber nú ekki vott um það að dýpra sé á kynþáttafordómum og -hatri hjá Íslendingum en öðrum þjóðum. Nema síður sé. Við höfum bara fram undir þetta verið það einangruð að lítið hefur reynt á umburðarlyndi gagnvart fólki af öðrum kynþáttum. Nú er einangrunin fyrir bí og þá spretta fordómarnir sem illgresi í rigningu. Og þarf hvorki langa né flókna sögu til. Sú árátta mannfólksins að skipta heiminum í „okkur“ og „hina“ hefur aldrei leitt neitt gott af sér. Og á tímum þegar þjóðerniskennd er opinber stefna stjórnvalda er sérstök þörf á því að halda vöku sinni, hugsa út fyrir túngarðinn og gera sér grein fyrir því að fordómar og hatur leiða aðeins til ills. Við erum nefnilega öll hinir í einhverju samhengi.