Tíska og hönnun

Tímalaus hönnun alltaf í uppáhaldi

Gunnhildur Jónsdóttir skrifar
Kristín Edda hefur gaman af því að safna að sér fallegum hlutum.
Kristín Edda hefur gaman af því að safna að sér fallegum hlutum. Mynd/Stefán
Kristín Edda Frímannsdóttir býr hjá foreldrum sínum á Seltjarnarnesi. Hún hefur verið dugleg að safna sér fallegum hlutum fyrir búið í framtíðinni.

„Ég pæli mikið í fallegum hlutum og skoða blöð og blogg um innanhúsarkitektúr. Ég hlakka til að flytja í mína eigin íbúð og breyta öllu eins og ég vil þótt það sé kannski langt í að það sé að fara að gerast, enda var ég að klára framhaldsskóla,“ segir Kristín sem útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík í vor.

„Draumahúsið mitt verður auðvitað staðsett í miðbænum. Mér finnst gaman að blanda saman gömlu og nýju en mér finnst hús sem eru nýtískuleg að utan alltaf svo flott. Ég er mjög hrifin af Kartell því þar er mikið verið að leika með plast í klassískum stíl sem er líka tímalaus,“ útskýrir Kristín.

„Það er einn hlutur á óskalistanum hjá mér núna en það er rauður Eames stóll sem að fæst í Epal,“ segir hún.

Í herbergi Kristínar er að finna mikið af fallegum hlutum sem hún hefur safnað að sér. Þegar hún var beðin um að velja nokkra sem voru í uppáhaldi vafðist henni tunga um tönn. „Ætli ég verði ekki að segja hreindýrin sem eru handgerð af Suður-Afrískum konum. Hvert dýr er merkt þeirri konu sem saumaði það. Þegar dýrin eru seld fer peningurinn í að koma börnum kvennanna í skóla. Ég fékk tvö í útskriftargjöf, eitt frá tengdaforeldrum mínum og annað frá vinkonunum.

Kartell lampinn er líka í miklu uppáhaldi en ég safnaði mér sjálf fyrir honum, enda tímalaus hönnun og ótrúlega flott birtan sem kemur frá honum. Þriðji hluturinn er Kubus kertastjakinn sem ég fékk í útskriftargjöf frá móðursystrum mínum. Hann er hannaður af Morgens Lassen og mér þykir mjög vænt um hann enda alltaf flottur þrátt fyrir að hann hafi verið hannaður árið 1962,“ útskýrir Kristín.

Í sumar var Kristín Edda að vinna sem flokkstjóri í vinnuskólanum á Seltjarnarnesi. Í haust ætlar hún að vinna sér inn pening til þess að ferðast til London og Kína til að heimsækja vinkonur sínar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.