Skoðun

Höfundarréttur.net

Jón Þór Ólafsson skrifar
Til að tryggja að höfundar gætu einir hagnast á eigin verkum voru fyrr á öldum sett afritunarákvæði í höfundalögin. Höfundar fengu tímabundið einkaleyfi til að afrita verk sín.

Í dag þurfum við að finna aðrar leiðir til að tryggja að höfundar einir geti hagnast á eigin verkum, því að til að framfylgja afritunareinkaleyfinu í nettengdum heimi þarf að njósna um alla netumferð og ritskoða internetið. Þeim fer fjölgandi sem skilja þetta og vilja ekki fórna friðhelgi einkalífs síns eða upplýsingafrelsi á internetinu fyrir afritunarákvæðið sem er úrelt leið til að tryggja að höfundar geti einir hagnast á eigin verkum. Við þurfum ný höfundarréttarákvæði til þess.

Píratar um allan heim leggja til að höfundalögin verði endurskoðuð þannig að höfundarrétthöfum sé tryggt tímabundið einkaleyfi til að hagnast á verkum sínum án þess þó að fá einkaleyfi á að fjölfalda efnið. Það þýðir að fólki verði frjálst að deila efni sín á milli til einkanota en höfundurinn hefur einkaleyfi á því að hagnast á annarri notkun þess. Ný viðskiptalíkön hafa sýnt og sannað að slíkur hagnaður á sér stað þótt efnið sé samtímis aðgengilegt án endurgjalds á internetinu.

Ný viðskiptalíkön á internetinu

Internetið skapar mikil tækifæri fyrir höfundarrétthafa. Þetta á sérstaklega við um þá sem nýta sér nýju tæknina. Þannig hefur það alltaf verið. Stjórnendur Amazon.com borguðu ekki út arð í áraraðir heldur settu þeir allan hagnað í að byggja upp notendavænt internetsölukerfi, m.a. á rafbókum sem eru í dag mikið keyptar og lítið deilt frítt á internetinu.

Nexflix.com veitir ótakmarkaðan aðgang að öllum sínum kvikmyndum og þáttaröðum gegn 1.000 króna mánaðargjaldi, sem undirritaður greiðir glaður. Spotify.com gerir það sama með tónlist. Nýja tæknin er líka að brjóta upp fákeppnismarkaðinn við greiðslumiðlun sem mun gera listamönnum auðveldara að selja aðdáendum sínum „beint frá býli“.

Vissulega verður listafólk og aðrir hugverkarétthafar fyrir óþægindum og oft skaða meðan nýju viðskiptalíkönin sem tryggja munu þeim tekjur í framtíðinni eru í mótun. Tæknibyltingar setja ríkjandi viðskiptahætti í uppnám samhliða því að skapa mikil tækifæri fyrir þá sem læra að nýta sér nýju tæknina.

Aðstoðum því skapandi fólk við að finna og skapa nýjar leiðir til að koma verkum sínum í verð á netinu. Hjálpumst svo að við að endurskoða höfundalögin til að þau nái sínum upprunalega tilgangi sem er að tryggja höfundum tímabundið einkaleyfi á því að hagnast á eigin verkum.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×