Matur

Nýtt köku-og matarblogg: Uppskrift að myntuskyrköku

Marín Manda skrifar
Tinna Björg er dugleg að blogga uppskriftum af mat og kökum.
Tinna Björg er dugleg að blogga uppskriftum af mat og kökum.

Tinna Björg Friðþórsdóttir er mikil áhugamanneskja um mat og bakstur og heldur úti blogginu tinnabjorg.com.

Þegar ég var barn dreymdi mig um að verða sjónvarpskokkur því uppáhaldssjónvarpsefnið mitt var matreiðsluþættirnir hans Sigga Hall. Ég var fimm eða sex ára þegar "Að hætti Sigga Hall“ fór í loftið og ég held ég hafi ekki misst af einum þætti,“ segir Tinna Björg Friðþjófsdóttir sem heldur úti nýju matar- og kökubloggi, tinnabjorg.com. Áhuginn á bakstri hefur verið til staðar frá blautu barnsbeini en móðir Tinnu Bjargar var heimavinnandi og kenndi henni mjög mikið. 

Rúlluterta með jarðarberjarjóma

Tinna Björg er á þriðja ári í lögfræði við HR og segist undirbúa mataræðið vel fyrir vikuna og búa til nesti á hverjum degi. „Ég hef verið að elda og baka frá því að ég man eftir mér. Ég er á því að fólk eigi að borða svolítið af kolvetni. Fita fer ekki vel í mig og því er ég ekki sérstaklega hlynnt LKL.“ Uppskriftunum á blogginu segist Tinna Björg hafa sankað að sér í gegnum tíðina og bætir við að hennar heitasti draumur sé að gefa út bók. 

Myntuskyrkaka

Myntuskyrkaka

Botn

1 pakki Bastogne Duo kex frá Lu

100 g smjör

Fylling 

500 g hreint skyr

1 vanillustöng

1 dl flórsykur

250 ml þeyttur rjómi

4 blöð matarlím

4 msk. rjómi

100 g suðusúkkulaði

Lauf af 6 myntustilkum 



Krem 

50 g Pipp með piparmyntu

3 msk. rjómi



Myljið kex í matvinnsluvél eða mortéli, bræðið smjör og blandið saman í skál. Þrýstið blöndunni í botninn á smelluformi og upp með hliðunum. Kælið í ísskáp á meðan fyllingin er gerð. Setjið skyr í skál, skerið vanillustöngina endilanga og skafið fræin úr henni með hnífsoddi. Þeytið vanillufræjum saman við skyrið og bætið flórsykri við. Ég kýs að nota vanillustangir eða -dropa.

Blandið þeyttum rjóma varlega saman við skyrið. Látið matarlímsblöð liggja í skál með vatni þar til þau verða mjúk. Hellið svo vatninu af þeim og setjið í pott ásamt 4 msk. af rjóma. Bræðið saman við vægan hita og passið að matarlímsblandan brenni ekki. Kælið þar til blandan er orðin volg og hellið svo út í skyrfyllinguna í mjórri bunu, hrærið stanslaust á meðan.

Saxið súkkulaðið og myntuna smátt og blandið saman við. Smyrjið fyllingunni á kexbotninn í smelluforminu og kælið þar til kakan er orðin stíf. Bræðið Pipp saman við 3 msk. af rjóma, kælið og hellið yfir kökuna. Passið að kremið sé ekki svo volgt að það bræði fyllinguna.

Ég ber kökuna fram á botninum úr forminu en hægt er að klæða hann með smjörpappír, sem sniðinn hefur verið ofan í formið, til að auðvelda að færa kökuna af botninum. Mér þykir kakan verða ferskari með hreinu skyri, vanillustöng og flórsykri en til að einfalda uppskriftina má nota tilbúið vanilluskyr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×