Tíska og hönnun

Ný barnafatalína frá Leynibúðinni

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Hulda Dröfn Atladóttir og Linda Ósk Guðmundsdóttir, fatahönnuðir í Leynibúðinni, hafa sent frá sér barnafatalínuna Leyniblómið.
Hulda Dröfn Atladóttir og Linda Ósk Guðmundsdóttir, fatahönnuðir í Leynibúðinni, hafa sent frá sér barnafatalínuna Leyniblómið. MYND/VALLI

Við ákváðum að gera litlar útgáfur af sumum þeim flíkum sem við erum að hanna á fullorðna en ég var að búa til kjólalínu sem mér fannst að myndi líka passa vel í litla kjóla,“ útskýrir Hulda Dröfn Atladóttir en hún og Linda Ósk Guðmundsdóttir hafa sent frá sér barnafatalínu undir heitinu Leyniblómið.

Hulda og Linda eru báðar fatahönnuðir og standa að Leynibúðinni á Laugavegi. Þær sauma allt sjálfar og eru með saumavélina uppi við í búðinni.

„Við gerum allt í litlu upplagi og því er þróunin hröð hjá okkur,“ segir Hulda.

„Hugmyndin fæðist og er framkvæmd strax, sem er skemmtilegt. Við erum með vinnustofu annars staðar en líka í búðinni. Þannig getum við haldið áfram að framleiða þegar við erum í búðinni og brugðist við séróskum, til dæmis í stærðum og litum,“ segir hún en fyrstu flíkurnar í Leyniblóminu eru væntanlegar á markaðinn á næstu dögum.

„Þetta eru aðallega kjólar og peysur en einnig slaufur á stráka, hárbönd og fleira. Línan verður fáanleg í versluninni Fiðrildið.“

Hulda og Linda hafa haldið utan um Leynibúðina undanfarið ár. Hulda lærði fatahönnun við LHÍ en Linda í Kobenhavns mode og design skole í Danmörku. Hulda segir samvinnu þeirra tveggja hafa smám saman undið upp á sig, Leyniblómið sé þó fyrsta verkefnið sem þær vinna alveg í sameiningu. Það sé öðruvísi áskorun að hanna á börn en fullorðna.

Leyniblómið inniheldur peysur og kjóla og fylgihluti. Hún mun fást í versluninni Fiðrildið.MYND/VALLI

„Maður hugsar meira um praktíska hluti þegar hannað er á börn. Þau stækka hratt og þá þurfa efnin að þola þvotta og gefa vel eftir. Mér finnst mjög gaman að hanna á börn en ekki endilega skemmtilegra en að hanna á fullorðna. Ég mun allavega ekki hætta að hanna á fullorðna þó ég sé byrjuð á barnafatalínu, það er gaman að gera þetta í bland,“ segir Hulda.

Nánar er hægt að forvitnast um hönnunina í Leynibúðinni á Facebook. Nýja barnafatalínan mun fást í versluninni Fiðrildið/Beroma sem er einnig á Facebook.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.