Jeppi í Vesturporti Jón Viðar Jónsson skrifar 8. október 2013 09:00 "Hvaða leiðir eru þessum snillingi, honum Ingvari, ekki færar?!“ spyr Jón Viðar. Leiklist: Jeppi á Fjalli Höfundur Ludvig Holberg Leikstjórn Benedikt Erlingsson Þýðing Bragi Valdimar Skúlason Leikmynd Gretar Reynisson Búningar Agnieszka Baranowska Lýsing Björn Bergsteinn Guðmundsson Hljóð Gunnar Sigurbjörnsson Tónlist og texti Megas og Bragi Valdimar Skúlason Jeppi á Fjalli eftir Ludvig Holberg er dönsk sveitaklassík frá öndverðri átjándu öld, sniðin eftir frönskum og rómverskum munstrum. Þó að Danir hafi látið Jeppa og aðrar kómedíur Holbergs sér vel líka nú á þriðju öld, fer því víðs fjarri að þær séu einhverjar heimsbókmenntir. Byggingin er sjaldnast með miklum glæsibrag né persónurnar geðugar. Boðskapnum einatt troðið ofan í kok áhorfandans. Ætli satíran um lærdómshrokann, Erasmus Montanus, sé ekki einna skást þeirra, sú sem helst mætti hafa gaman af nú á tímum? Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi einhvers konar kabarett-músíkal upp úr Jeppa á Nýja sviðinu nú fyrir helgi. Benedikt Erlingsson leikstýrir og kippir inn á sviðið heilu bandi. Megas semur tónlist og söngtexta ásamt Baggalútnum Braga Valdimar Skúlasyni, sem þýðir leiktextann, rækilega styttan og frjálslega með farinn. Það var allt snoturlega gert hjá þeim, ljúft og þægilegt áheyrnar. En í heild er sýningin afskaplega misleit. Þar eru innan um skemmtileg atriði sem má brosa og jafnvel stöku sinnum hlæja að, með góðum vilja, en til hvers er verið að draga þennan gamlingja fram og poppa upp fyrir okkur nú, það mega guðirnir vita. Vissulega er þarna tæpt á sígildum alvörumálum, svo sem alkóhólisma og valdasýki múgamanna. Jeppi bóndi er drykkjusjúklingur; drekkur frá sér vit og rænu á leið í kaupstaðinn, lendir í höndunum á óprúttnum baróni og skósveinum hans, sem drusla garminum heim í höll baróns og leggja í rekkju hans. Þegar karl vaknar telja þeir honum trú um að hann sé húsbóndinn sjálfur, allt hans fyrra eymdarlíf aðeins illur draumur. Þar með talinn hjúskapur hans og skassins hennar Nillu sem er meðvirknin uppmáluð, sýknt og heilagt berjandi á bónda fyrir fylleríið. Sjálfur reynist Jeppi gersamlega forstokkaður, þegar hann fer að trúa á allt platið, og vill nú sem óðast hengja mann og annan. Eins gott að hann drekkur sig aftur út úr og hægt að skila honum á fjóshauginn sem hann var hirtur upp af. Og áhorfandanum ætti að hafa skilist hversu fráleitt sé að hleypa almúganum til valda, nauðsynlegt að muna að völdin séu best geymd hjá aðli og arfakóngi, einvöldum af Guðs náð. Þörf kenning það, árið 2013. Það er sem sagt margt skrýtið í þessari sýningu og ekki allt ánægjulegt. Sviðsgólfið er þakið flöskum í hundraðatali, sem eiga víst að minna á að Jeppi sé alki, ef það skyldi nú fara fram hjá einhverjum. Á sviðinu er einnig gríðarstór tromla eða hjól, af því tagi sem oft eru sett í búr hjá hömstrum að klifra í og hlaupa; það vantar bara vatnspyttinn til að gera þetta að fullkomnu Vesturporti. Sumir leikenda fá stöku sinnum að hendast upp í græjuna og sýna listir sínar, í sönnum portverskum stíl, en annars er hún furðulítið notuð, miðað við alla fyrirferðina. Hafi hún einnig átt að tákna eitthvað sérstakt, mega aðrir en ég skýra það út. Frammistaða leikenda er misjöfn, vægast sagt, og sumir alls ekki á réttum stað. Músíkantarnir eru oft kallaðir til að taka þátt í leiknum: nýgræðingurinn Björn Stefánsson, trúlega betur þekktur sem Bjössi í Mínus, stóð sig einna best af þeim. Bergþór Pálsson leikur baróninn, en Bergþór er söngvari, ekki leikari, og á ekki heima á öðru atvinnusviði en óperusviði. Úr ógeðfelldri persónu barónsins gæti snjall leikari gert sér góðan mat, sú varð ekki raunin hér. Hin ágæta leikkona Ilmur Kristjánsdóttir á ekki heldur að koma nærri kvenvörgum eins og frú Nillu; til þess hefur hún ekki þær vígtennur sem til þarf. Þeir Bergur Þór Ingólfsson og nýliðinn Arnmundur E.B. Björnsson brilléruðu hins vegar sem kómískt dúó, jafn kostulegir sem málóðir málafærslumenn og syngjandi hjúkkur að reyna að vera sætar og sexý. En það er Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki Jeppa sem ber kvöldið uppi með afburða vönduðum leik, hreinum stjörnuleik. Það er ár og dagur síðan ég hef séð fylliraft – afsakið: fárveikan alkóhólista – sýndan svo vel á leiksviði, mann sem er tekinn að brenna út af langvarandi drykkju. Ásjónan að stirðna, augun að slokkna. Það var óhugnanlegt og fyndið í senn, nákvæmlega eins og vera ber. Hvaða leiðir eru þessum snillingi, honum Ingvari, ekki færar?! Leikir Holbergs gegndu sögulegu hlutverki á sinni tíð, ekki aðeins hjá Dönum, heldur einnig hér hjá okkur. En nú ætti þessi konungholli móralisti að fá að hvíla í friði í sinni dönsku grund. Íslensku leikhúsi væri nær að fara að sinna leikjum lærimeistara hans, Molières, sem hér hafa lengst af verið sorglega vanræktir. Eru hinir bestu þeirra þó löngu orðnir sameign mannkyns, óbrotgjörn list ofar stað og stund, eitt af því sem hver kynslóð áhorfenda á að fá að kynnast og njóta.Niðurstaða: Gömul dönsk sveitaklassík, framreidd í frekar bragðlausri íslenskri kabarettfroðu, er ekki spennandi réttur. En Ingvar E. bjargar kvöldinu með stjörnuleik sem enginn leiklistarunnandi má missa af. Gagnrýni Mest lesið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Menning „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira
Leiklist: Jeppi á Fjalli Höfundur Ludvig Holberg Leikstjórn Benedikt Erlingsson Þýðing Bragi Valdimar Skúlason Leikmynd Gretar Reynisson Búningar Agnieszka Baranowska Lýsing Björn Bergsteinn Guðmundsson Hljóð Gunnar Sigurbjörnsson Tónlist og texti Megas og Bragi Valdimar Skúlason Jeppi á Fjalli eftir Ludvig Holberg er dönsk sveitaklassík frá öndverðri átjándu öld, sniðin eftir frönskum og rómverskum munstrum. Þó að Danir hafi látið Jeppa og aðrar kómedíur Holbergs sér vel líka nú á þriðju öld, fer því víðs fjarri að þær séu einhverjar heimsbókmenntir. Byggingin er sjaldnast með miklum glæsibrag né persónurnar geðugar. Boðskapnum einatt troðið ofan í kok áhorfandans. Ætli satíran um lærdómshrokann, Erasmus Montanus, sé ekki einna skást þeirra, sú sem helst mætti hafa gaman af nú á tímum? Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi einhvers konar kabarett-músíkal upp úr Jeppa á Nýja sviðinu nú fyrir helgi. Benedikt Erlingsson leikstýrir og kippir inn á sviðið heilu bandi. Megas semur tónlist og söngtexta ásamt Baggalútnum Braga Valdimar Skúlasyni, sem þýðir leiktextann, rækilega styttan og frjálslega með farinn. Það var allt snoturlega gert hjá þeim, ljúft og þægilegt áheyrnar. En í heild er sýningin afskaplega misleit. Þar eru innan um skemmtileg atriði sem má brosa og jafnvel stöku sinnum hlæja að, með góðum vilja, en til hvers er verið að draga þennan gamlingja fram og poppa upp fyrir okkur nú, það mega guðirnir vita. Vissulega er þarna tæpt á sígildum alvörumálum, svo sem alkóhólisma og valdasýki múgamanna. Jeppi bóndi er drykkjusjúklingur; drekkur frá sér vit og rænu á leið í kaupstaðinn, lendir í höndunum á óprúttnum baróni og skósveinum hans, sem drusla garminum heim í höll baróns og leggja í rekkju hans. Þegar karl vaknar telja þeir honum trú um að hann sé húsbóndinn sjálfur, allt hans fyrra eymdarlíf aðeins illur draumur. Þar með talinn hjúskapur hans og skassins hennar Nillu sem er meðvirknin uppmáluð, sýknt og heilagt berjandi á bónda fyrir fylleríið. Sjálfur reynist Jeppi gersamlega forstokkaður, þegar hann fer að trúa á allt platið, og vill nú sem óðast hengja mann og annan. Eins gott að hann drekkur sig aftur út úr og hægt að skila honum á fjóshauginn sem hann var hirtur upp af. Og áhorfandanum ætti að hafa skilist hversu fráleitt sé að hleypa almúganum til valda, nauðsynlegt að muna að völdin séu best geymd hjá aðli og arfakóngi, einvöldum af Guðs náð. Þörf kenning það, árið 2013. Það er sem sagt margt skrýtið í þessari sýningu og ekki allt ánægjulegt. Sviðsgólfið er þakið flöskum í hundraðatali, sem eiga víst að minna á að Jeppi sé alki, ef það skyldi nú fara fram hjá einhverjum. Á sviðinu er einnig gríðarstór tromla eða hjól, af því tagi sem oft eru sett í búr hjá hömstrum að klifra í og hlaupa; það vantar bara vatnspyttinn til að gera þetta að fullkomnu Vesturporti. Sumir leikenda fá stöku sinnum að hendast upp í græjuna og sýna listir sínar, í sönnum portverskum stíl, en annars er hún furðulítið notuð, miðað við alla fyrirferðina. Hafi hún einnig átt að tákna eitthvað sérstakt, mega aðrir en ég skýra það út. Frammistaða leikenda er misjöfn, vægast sagt, og sumir alls ekki á réttum stað. Músíkantarnir eru oft kallaðir til að taka þátt í leiknum: nýgræðingurinn Björn Stefánsson, trúlega betur þekktur sem Bjössi í Mínus, stóð sig einna best af þeim. Bergþór Pálsson leikur baróninn, en Bergþór er söngvari, ekki leikari, og á ekki heima á öðru atvinnusviði en óperusviði. Úr ógeðfelldri persónu barónsins gæti snjall leikari gert sér góðan mat, sú varð ekki raunin hér. Hin ágæta leikkona Ilmur Kristjánsdóttir á ekki heldur að koma nærri kvenvörgum eins og frú Nillu; til þess hefur hún ekki þær vígtennur sem til þarf. Þeir Bergur Þór Ingólfsson og nýliðinn Arnmundur E.B. Björnsson brilléruðu hins vegar sem kómískt dúó, jafn kostulegir sem málóðir málafærslumenn og syngjandi hjúkkur að reyna að vera sætar og sexý. En það er Ingvar E. Sigurðsson í hlutverki Jeppa sem ber kvöldið uppi með afburða vönduðum leik, hreinum stjörnuleik. Það er ár og dagur síðan ég hef séð fylliraft – afsakið: fárveikan alkóhólista – sýndan svo vel á leiksviði, mann sem er tekinn að brenna út af langvarandi drykkju. Ásjónan að stirðna, augun að slokkna. Það var óhugnanlegt og fyndið í senn, nákvæmlega eins og vera ber. Hvaða leiðir eru þessum snillingi, honum Ingvari, ekki færar?! Leikir Holbergs gegndu sögulegu hlutverki á sinni tíð, ekki aðeins hjá Dönum, heldur einnig hér hjá okkur. En nú ætti þessi konungholli móralisti að fá að hvíla í friði í sinni dönsku grund. Íslensku leikhúsi væri nær að fara að sinna leikjum lærimeistara hans, Molières, sem hér hafa lengst af verið sorglega vanræktir. Eru hinir bestu þeirra þó löngu orðnir sameign mannkyns, óbrotgjörn list ofar stað og stund, eitt af því sem hver kynslóð áhorfenda á að fá að kynnast og njóta.Niðurstaða: Gömul dönsk sveitaklassík, framreidd í frekar bragðlausri íslenskri kabarettfroðu, er ekki spennandi réttur. En Ingvar E. bjargar kvöldinu með stjörnuleik sem enginn leiklistarunnandi má missa af.
Gagnrýni Mest lesið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Brostnar væntingar á Frostrósum Gagnrýni Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Menning „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Lífið Frægir fjölguðu sér árið 2024 Lífið Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo Lífið Fleiri fréttir Brostnar væntingar á Frostrósum Jólakötturinn hvæsti á tónleikagesti Bríet olli vonbrigðum Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Sjá meira