Sjaldgæft ferðalag Íslendings á 17. öld 19. október 2013 14:00 Stundum er ævintýragirnd víkinganna talin hafa átt mikinn þátt í að norrænir menn settust að hér á Íslandi. En hafi svo verið þá þraut hana fyrr en síðar. Í margar aldir mátti heita að engir Íslendingar færu til útlanda, nema þeir sem ætluðu að læra til prests eða lögmanns í Kaupmannahöfn. Stöku undantekningar voru þó til, og Ásgeir Sigurðsson er ein þeirra. Hann fór víða um Norður-Evrópu á ofanverðri 17. öld þegar miklar róstur voru á því svæði, en allar þær róstur lifði hann af, og komst heilu og höldnu til baka. Þessa mjög óvenjulegu sögu ætla ég að rekja í dag. Ásgeir fæddist á Rauðsdal á Barðaströnd um það bil árið 1650. Faðir hans var bóndi þar á bæ. Ásgeir var af svokölluðum „góðum ættum“ því afi hans í föðurætt var Jón eldri Magnússon sýslumaður í Dalasýslu, sem var bróðir til dæmis Ara sýslumanns í Ögri. Ásgeir var sem sagt af Svalbarðsættinni svonefndu sem var voldugust og ríkust ætta á Íslandi á fyrri hluti 17. aldar. Faðir hans og móðir voru þó varla sterkefnuð, enda ættarauðurinn nokkuð farinn að þynnast út þegar kom að kynslóð Ásgeirs. Þó hafði Sigurður faðir hans efni á að senda son sinn utan til náms í Kaupmannahöfn og þar hefst ævisagan, þann 25. ágúst 1678, þegar Ásgeir stígur á danskt kaupskip í Patreksfirði og heldur þaðan upp til Danmerkur. Skipið var í eigu Ísaks nokkurs Klómanns. Siglt var suður fyrir land og þótt enn ætti að heita sumar gerði slíkar frosthörkur eftir fáeina daga á sjó að lengi vel kom áhöfnin engum seglum við. Þannig var veðurlagið á Norður-Atlantshafinu upp úr miðri 17. öld þegar „litla ísöldin“ geisaði enn. Eftir þriggja vikna siglingu komst skipið upp að Noregsströndum og þá í slíku illviðri að Ásgeir hélt að skipið væri að sökkva, og „var [ég] þá mjög hljóður, vildi þá heldur hafa verið í Íslandi en þar“. Ekki tók betra við á leiðinni frá Noregi til Kaupmannahafnar, en þá elti sjóræningjaskip frá Skotlandi farskipið og skaut að því, en það komst undan að lokum.Í þjónustu snikkara Þegar til Kaupmannahafnar kom bjó Ásgeir um hríð hjá kaupmanninum Klómann og konu hans, sem honum féll mjög vel við. En síðan fór hann að læra trésmíðar eða snikkaraiðn. Ásgeir virðist hafa tekið ákvörðun um það sjálfur, en ekki fylgir sögunni hvað foreldrar hans höfðu ætlast fyrir með því að senda hann utan. Námið var óskemmtilegt en hann þurfti að ganga í þjónustu snikkara að nafni Hans Hildebrand og lúta vilja hans í einu og öllu meðan á náminu stóð. „Voru þá lesnar fyrir mér lífsreglur, hversu ég skyldi halda mig á mínum læriárum, sem var fyrst [að] ég skyldi læra í hálft fjórða ár og [borga fyrir það] 20 dali slétta, [að] ég skyldi gera allt það sem minn húsbóndi [eða kona hans skipaði] mér, [að] ég skyldi enga nótt vera úti af þeirra húsi, annars [skyldi ég þurfa að byrja námið upp á nýtt], [að] ég skyldi ekki mega ganga út [úr] húsinu utan leyfis, [að] ég skyldi ekkert kaup fá í það hálft fjórða ár, [né] klæði [en aðeins fá að éta], [að] ég skyldi ekki [fara í rúmið] fyrr en mér væri skipað, en skyldi fara á fætur, þá [er] klukkan væri 4…“ Fleiri hörðum skilmálum varð Ásgeir að hlíta, sem hann kvaðst ekki nenna að tilgreina, en tekur fram að þetta þættu harðir skilmálar við vinnufólk á Íslandi. Og fór það þó ekki um með húrrahrópum yfir kjörum sínum. Ásgeir kveðst í hinni hreinskilnu ævisögu sinni hafa verið barinn upp á hvern dag, stundum hafi hann átt einhverja sök á því en oft hafi barsmíðarnar verið tilefnislausar. Og hann fékk ekki meira að bíta og brenna en talist gat algjört lágmark. Allan þann tíma sem hann var við námið fór hann ekki út úr húsi. Og hann segist oft hafa hugsað heim til foreldra sinna þegar verst lét. Oft hafi hann langað að hefna sín og snúast til varnar þegar hann var barinn en hafi gert að af vináttu við Klómann kaupmann og konu hans að láta þetta allt yfir sig ganga, en þau höfðu gengist í ábyrgð fyrir hann við Hans Hildebrand. Einu sinni veiktist Ásgeir og lá milli heims og helju í hitasótt í 14 daga og þá segist hann oft hafa hugsað að nú væri réttast að deyja bara til að losna frá þrautum sínum. Að lokum hresstist hann þó en þá veiktist meistarinn Hildebrand, „hvar við ég gladdi mig að hann mundi deyja“, skrifar Ásgeir. Meðan Hildebrand lá á sóttarsæng vildi það slys til að Ásgeir og annar snikkarasveinn brutu í ógáti rúm sem þeir voru að smíða, og Hildebrand lýsti því þá yfir að strax og hann kæmist á fætur myndi hann brjóta í þeim báðum hvert bein, rétt eins og þeir hefðu brotið rúmið. Ljóst er að Ásgeir trúði honum fyllilega til þess og hrósaði því happi þegar Hildebrand náði sér aldrei af sóttinni, heldur geispaði golunni. Þá átti Ásgeir eitt ár eftir af náminu. Ekkja Hildebrands gekk fljótlega að eiga annan snikkara, væntanlega til að halda trésmíðaverkstæðinu, og nýi snikkarinn var Þjóðverji sem reyndist Ásgeiri vel það ár sem hann átti eftir af náminu. Árið 1673 fékk Ásgeir Sigurðsson svo sveinsbréf sitt í snikkaraiðn og lagðist í ferðalög ásamt öðrum pilti sem eins var ástatt um. Árið áður hafði Ásgeir fengið bréf frá móður sinni þar sem hún tilkynnti honum lát föður hans, „hvað mér var lítil gleði að heyra. Þenkti ég þá að koma aldrei til Íslands meir“. Næstu árin flakkaði hann víða. Hann fór til Prússlands og Póllands þar sem hann kvaðst hafa séð það fallegasta kvenfólk sem hann hefði augum litið á ferðalögum sínum, „því þess skapning og andlitsfegurð er yfirmáta dæileg“ eins og hann orðar það í ævisögunni. Síðan sigldi Ásgeir til Hollands og lenti í ótrúlegum sjávarháska á leiðinni – stýri skipsins brotnaði neðan sjávarmáls en stýrimaður lét binda mikinn skinnpoka fast um höfuð sitt og fór svo í kaf með nýja fjöl til að festa við stýrið. Loftið inni í skinnpokanum dugði meðan hann var að paufast um í kafi, án þess að sjá nokkurn hlut, og var hann svo dreginn upp með kaðli sem festur hafði verið við hann. Frá Hollandi fór Ásgeir svo til Þýskalands og flakkaði þar víða, hafði stundum aðsetur í allt að eitt ár á hverjum stað, en var annars sífellt á ferðinni. Hann var handtekinn hvað eftir annað og átti að skikka hann í einhvern þeirra fjölmörgu herja sem fóru um þýsku ríkin í þá daga. Stundum þurfti hann að sitja inni vikum saman, en náði stundum að borga sig lausan, en aldrei kom til mála að hefja hermennsku. 100 allsnaktir Þjóðverjar Í Dresden var Ásgeir eitt sinn úti að ganga með fjórum öðrum snikkarasveinum þegar nokkrir gullsmíðasveinar tóku að veitast að þeim. Ásgeir og félagar stökktu gullsmíðasveinunum á flótta en einn varð þó eftir og réðist með sverð að vopni að snikkarasveinunum. Þeir reyndu að fá hann til að leggja niður vopn en þegar það tókst ekki brugðust þeir svo hart við að þeir drápu manninn, hjuggu hann alls 49 höggum. Þeir voru svo handteknir og hafðir hlekkjaðir í haldi vikum saman og sífellt yfirheyrðir um hver þeirra hefði veitt gullsmíðasveininum stærsta höggið og það sem varð honum að bana. Þeir vildu ekki gefa það upp en voru þó við það að gefast upp að lokum og ætluðu að segja til félaga síns. En voru þeir orðnir svo máttfarnir og aumir að yfirvöld í Dresden aumkuðu sig yfir þá og létu þá lausa. Enn var Ásgeir svo handtekinn einu sinni þegar hann rambaði fram á franskan herflokk sem fór rænandi og ruplandi um Rínarlönd, en svo aðgangsharðir voru frönsku hermennirnir að þeir sviptu Ásgeir og félaga hans hverjum klæðisbút og sendu þá allsnakta burt frá sér. Þetta sagði Ásgeir að hefði verið alsiða hjá Frökkum og hefði hann einu sinni gengið fram á 100 allsnakta Þjóðverja sem nýsloppnir voru úr klóm Frakka. „Það var ein undarleg sýn að sjá svo marga manneskju nakta,“ skrifar hann. Að lokum var hann eitt og hálft ár í Hamborg við smíðar en virðist þá loksins hafa verið kominn með heimþrá, því 1677 sneri hann heim til Íslands. Því miður virðist hann ekki hafa talið neitt frásagnarvert hafa hent sig á Íslandi, því þar með lýkur ævisögunni. Flækjusaga Menning Mest lesið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Tæki Brynjar Níels með í bústaðinn Lífið Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku Gagnrýni Stóð með sjálfri sér og ekki talað við pabba sinn síðan 2015 Lífið Heiðdís Rós fagnaði sigrinum með sjálfum Trump Lífið „Dagurinn var algjörlega fullkominn“ Lífið Aron selur húsið ári eftir kaupin Lífið Heitt, sveitt og óhugnanlegt á klúbbnum Lífið „Hann kemur inn með algerlega einstakt sánd“ Lífið Fleiri fréttir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira
Stundum er ævintýragirnd víkinganna talin hafa átt mikinn þátt í að norrænir menn settust að hér á Íslandi. En hafi svo verið þá þraut hana fyrr en síðar. Í margar aldir mátti heita að engir Íslendingar færu til útlanda, nema þeir sem ætluðu að læra til prests eða lögmanns í Kaupmannahöfn. Stöku undantekningar voru þó til, og Ásgeir Sigurðsson er ein þeirra. Hann fór víða um Norður-Evrópu á ofanverðri 17. öld þegar miklar róstur voru á því svæði, en allar þær róstur lifði hann af, og komst heilu og höldnu til baka. Þessa mjög óvenjulegu sögu ætla ég að rekja í dag. Ásgeir fæddist á Rauðsdal á Barðaströnd um það bil árið 1650. Faðir hans var bóndi þar á bæ. Ásgeir var af svokölluðum „góðum ættum“ því afi hans í föðurætt var Jón eldri Magnússon sýslumaður í Dalasýslu, sem var bróðir til dæmis Ara sýslumanns í Ögri. Ásgeir var sem sagt af Svalbarðsættinni svonefndu sem var voldugust og ríkust ætta á Íslandi á fyrri hluti 17. aldar. Faðir hans og móðir voru þó varla sterkefnuð, enda ættarauðurinn nokkuð farinn að þynnast út þegar kom að kynslóð Ásgeirs. Þó hafði Sigurður faðir hans efni á að senda son sinn utan til náms í Kaupmannahöfn og þar hefst ævisagan, þann 25. ágúst 1678, þegar Ásgeir stígur á danskt kaupskip í Patreksfirði og heldur þaðan upp til Danmerkur. Skipið var í eigu Ísaks nokkurs Klómanns. Siglt var suður fyrir land og þótt enn ætti að heita sumar gerði slíkar frosthörkur eftir fáeina daga á sjó að lengi vel kom áhöfnin engum seglum við. Þannig var veðurlagið á Norður-Atlantshafinu upp úr miðri 17. öld þegar „litla ísöldin“ geisaði enn. Eftir þriggja vikna siglingu komst skipið upp að Noregsströndum og þá í slíku illviðri að Ásgeir hélt að skipið væri að sökkva, og „var [ég] þá mjög hljóður, vildi þá heldur hafa verið í Íslandi en þar“. Ekki tók betra við á leiðinni frá Noregi til Kaupmannahafnar, en þá elti sjóræningjaskip frá Skotlandi farskipið og skaut að því, en það komst undan að lokum.Í þjónustu snikkara Þegar til Kaupmannahafnar kom bjó Ásgeir um hríð hjá kaupmanninum Klómann og konu hans, sem honum féll mjög vel við. En síðan fór hann að læra trésmíðar eða snikkaraiðn. Ásgeir virðist hafa tekið ákvörðun um það sjálfur, en ekki fylgir sögunni hvað foreldrar hans höfðu ætlast fyrir með því að senda hann utan. Námið var óskemmtilegt en hann þurfti að ganga í þjónustu snikkara að nafni Hans Hildebrand og lúta vilja hans í einu og öllu meðan á náminu stóð. „Voru þá lesnar fyrir mér lífsreglur, hversu ég skyldi halda mig á mínum læriárum, sem var fyrst [að] ég skyldi læra í hálft fjórða ár og [borga fyrir það] 20 dali slétta, [að] ég skyldi gera allt það sem minn húsbóndi [eða kona hans skipaði] mér, [að] ég skyldi enga nótt vera úti af þeirra húsi, annars [skyldi ég þurfa að byrja námið upp á nýtt], [að] ég skyldi ekki mega ganga út [úr] húsinu utan leyfis, [að] ég skyldi ekkert kaup fá í það hálft fjórða ár, [né] klæði [en aðeins fá að éta], [að] ég skyldi ekki [fara í rúmið] fyrr en mér væri skipað, en skyldi fara á fætur, þá [er] klukkan væri 4…“ Fleiri hörðum skilmálum varð Ásgeir að hlíta, sem hann kvaðst ekki nenna að tilgreina, en tekur fram að þetta þættu harðir skilmálar við vinnufólk á Íslandi. Og fór það þó ekki um með húrrahrópum yfir kjörum sínum. Ásgeir kveðst í hinni hreinskilnu ævisögu sinni hafa verið barinn upp á hvern dag, stundum hafi hann átt einhverja sök á því en oft hafi barsmíðarnar verið tilefnislausar. Og hann fékk ekki meira að bíta og brenna en talist gat algjört lágmark. Allan þann tíma sem hann var við námið fór hann ekki út úr húsi. Og hann segist oft hafa hugsað heim til foreldra sinna þegar verst lét. Oft hafi hann langað að hefna sín og snúast til varnar þegar hann var barinn en hafi gert að af vináttu við Klómann kaupmann og konu hans að láta þetta allt yfir sig ganga, en þau höfðu gengist í ábyrgð fyrir hann við Hans Hildebrand. Einu sinni veiktist Ásgeir og lá milli heims og helju í hitasótt í 14 daga og þá segist hann oft hafa hugsað að nú væri réttast að deyja bara til að losna frá þrautum sínum. Að lokum hresstist hann þó en þá veiktist meistarinn Hildebrand, „hvar við ég gladdi mig að hann mundi deyja“, skrifar Ásgeir. Meðan Hildebrand lá á sóttarsæng vildi það slys til að Ásgeir og annar snikkarasveinn brutu í ógáti rúm sem þeir voru að smíða, og Hildebrand lýsti því þá yfir að strax og hann kæmist á fætur myndi hann brjóta í þeim báðum hvert bein, rétt eins og þeir hefðu brotið rúmið. Ljóst er að Ásgeir trúði honum fyllilega til þess og hrósaði því happi þegar Hildebrand náði sér aldrei af sóttinni, heldur geispaði golunni. Þá átti Ásgeir eitt ár eftir af náminu. Ekkja Hildebrands gekk fljótlega að eiga annan snikkara, væntanlega til að halda trésmíðaverkstæðinu, og nýi snikkarinn var Þjóðverji sem reyndist Ásgeiri vel það ár sem hann átti eftir af náminu. Árið 1673 fékk Ásgeir Sigurðsson svo sveinsbréf sitt í snikkaraiðn og lagðist í ferðalög ásamt öðrum pilti sem eins var ástatt um. Árið áður hafði Ásgeir fengið bréf frá móður sinni þar sem hún tilkynnti honum lát föður hans, „hvað mér var lítil gleði að heyra. Þenkti ég þá að koma aldrei til Íslands meir“. Næstu árin flakkaði hann víða. Hann fór til Prússlands og Póllands þar sem hann kvaðst hafa séð það fallegasta kvenfólk sem hann hefði augum litið á ferðalögum sínum, „því þess skapning og andlitsfegurð er yfirmáta dæileg“ eins og hann orðar það í ævisögunni. Síðan sigldi Ásgeir til Hollands og lenti í ótrúlegum sjávarháska á leiðinni – stýri skipsins brotnaði neðan sjávarmáls en stýrimaður lét binda mikinn skinnpoka fast um höfuð sitt og fór svo í kaf með nýja fjöl til að festa við stýrið. Loftið inni í skinnpokanum dugði meðan hann var að paufast um í kafi, án þess að sjá nokkurn hlut, og var hann svo dreginn upp með kaðli sem festur hafði verið við hann. Frá Hollandi fór Ásgeir svo til Þýskalands og flakkaði þar víða, hafði stundum aðsetur í allt að eitt ár á hverjum stað, en var annars sífellt á ferðinni. Hann var handtekinn hvað eftir annað og átti að skikka hann í einhvern þeirra fjölmörgu herja sem fóru um þýsku ríkin í þá daga. Stundum þurfti hann að sitja inni vikum saman, en náði stundum að borga sig lausan, en aldrei kom til mála að hefja hermennsku. 100 allsnaktir Þjóðverjar Í Dresden var Ásgeir eitt sinn úti að ganga með fjórum öðrum snikkarasveinum þegar nokkrir gullsmíðasveinar tóku að veitast að þeim. Ásgeir og félagar stökktu gullsmíðasveinunum á flótta en einn varð þó eftir og réðist með sverð að vopni að snikkarasveinunum. Þeir reyndu að fá hann til að leggja niður vopn en þegar það tókst ekki brugðust þeir svo hart við að þeir drápu manninn, hjuggu hann alls 49 höggum. Þeir voru svo handteknir og hafðir hlekkjaðir í haldi vikum saman og sífellt yfirheyrðir um hver þeirra hefði veitt gullsmíðasveininum stærsta höggið og það sem varð honum að bana. Þeir vildu ekki gefa það upp en voru þó við það að gefast upp að lokum og ætluðu að segja til félaga síns. En voru þeir orðnir svo máttfarnir og aumir að yfirvöld í Dresden aumkuðu sig yfir þá og létu þá lausa. Enn var Ásgeir svo handtekinn einu sinni þegar hann rambaði fram á franskan herflokk sem fór rænandi og ruplandi um Rínarlönd, en svo aðgangsharðir voru frönsku hermennirnir að þeir sviptu Ásgeir og félaga hans hverjum klæðisbút og sendu þá allsnakta burt frá sér. Þetta sagði Ásgeir að hefði verið alsiða hjá Frökkum og hefði hann einu sinni gengið fram á 100 allsnakta Þjóðverja sem nýsloppnir voru úr klóm Frakka. „Það var ein undarleg sýn að sjá svo marga manneskju nakta,“ skrifar hann. Að lokum var hann eitt og hálft ár í Hamborg við smíðar en virðist þá loksins hafa verið kominn með heimþrá, því 1677 sneri hann heim til Íslands. Því miður virðist hann ekki hafa talið neitt frásagnarvert hafa hent sig á Íslandi, því þar með lýkur ævisögunni.
Flækjusaga Menning Mest lesið Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Brynjar Morthens leikur Bubba Morthens Bíó og sjónvarp Tæki Brynjar Níels með í bústaðinn Lífið Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku Gagnrýni Stóð með sjálfri sér og ekki talað við pabba sinn síðan 2015 Lífið Heiðdís Rós fagnaði sigrinum með sjálfum Trump Lífið „Dagurinn var algjörlega fullkominn“ Lífið Aron selur húsið ári eftir kaupin Lífið Heitt, sveitt og óhugnanlegt á klúbbnum Lífið „Hann kemur inn með algerlega einstakt sánd“ Lífið Fleiri fréttir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira