Lífið

Jólastjörnurnar skína skært í Álftanesskóla

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Agla Bríet Einarsdóttir, Sara Renee Griffin og Veronika Heba Smáradóttir eru allar komnar í tíu manna úrslit í Jólastjörnunni 2013.
Agla Bríet Einarsdóttir, Sara Renee Griffin og Veronika Heba Smáradóttir eru allar komnar í tíu manna úrslit í Jólastjörnunni 2013. fréttablaðið/gva
„Þetta er ótrúlega skemmtilegt og frábært tækifæri fyrir okkur,“ segir Agla Bríet Einarsdóttir, einn keppenda í söngvakeppninni Jólastjarnan 2013.

Í keppninni er komin upp sérkennileg staða því þrjár stelpur úr Álftanesskóla eru á meðal þeirra tíu keppenda sem komnir eru í lokaúrslit.

Ásamt Öglu Bríeti eru þær Veronika Heba Smáradóttir og Sara Renee Griffin á meðal keppenda. Agla Bríet og Veronika eru saman í bekk en þær eru í sjöunda bekk og Sara er í áttunda bekk.

„Við erum miklar vinkonur og syngjum mikið saman. Við hittumst oft eftir skóla og æfum okkur saman,“ segir Veronika um vinskap sinn við bekkjarsystur sína Öglu Bríeti.

Sara er ný í Álftanesskóla og er frá Vestmannaeyjum, þar sem hún hefur tekið þátt í ýmsu leiklistarstarfi en einnig vann hún söngvakeppni barna á Þjóðhátíð síðastliðið sumar.

Allar þrjár stúlkurnar hafa sungið frá því þær muna eftir sér.

„Ég hef sungið frá því ég man eftir mér en nú er ég byrjuð í sönglist hjá Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur, sem kennir við skólann okkar,“ segir Sara.

Bekkjarsysturnar Agla Bríet og Veronika eru báðar að læra söng hjá Ceciliu Magnúsdóttur.

„Hún er besti söngkennari í heimi,“ segir Veronika létt í lundu. Cecilie hefur komið bekkjarsystrunum að og hafa þær sungið talsvert á ýmsum mannamótum á Álftanesi.

Þegar spurt er um hljóðfæraleik segist Veronika spila á selló og píanó. Agla Bríet spilar á gítar og er meðal annars í samspilshóp í tónlistarskólanum þar sem hún spilar á gítar og syngur.

„Það er mjög gaman og við spilum rokktónlist. Það er auðvitað æfing að spila á gítarinn og syngja í leiðinni en það er allt að koma,“ segir Agla Bríet. Þá leikur hún einnig í Óvitunum sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu.

„Það gæti vel verið að við stofnum hljómsveit saman eftir þetta skemmtilega ævintýri,“ segja þær allar, aðspurðar um framhaldið.

Leitin að Jólastjörnunni 2013 fer nú fram og verður sigurvegarinn krýndur næstkomandi fimmtudag í Íslandi í dag. Hægt er að horfa á flutning allra keppenda á Vísi. Þar hafa Jólastjörnumyndböndin slegið í gegn síðustu daga og hefur verið horft um hundrað þúsund sinnum á þau.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×