Lög, kvæði og þjóðlegan fróðleik er að finna á nýútkomna DVD-disknum Íslensku jólasveinarnir okkar. Það er framleiðslufyrirtækið Sítrus sem gefur diskinn út og er ætlunin með honum að fræða börn um gömlu jólasiðina.
„Þetta er svona kynning á íslensku jólasveinunum,“ segir Stefán Sigurjónsson hjá Sítrus. Allir þrettán jólasveinarnir eru kynntir með leik, söng og þekktum vísum Jóhannesar úr Kötlum, en þær eru lesnar af Ólafi Darra Ólafssyni leikara. Einnig fylgir með alls konar fróðleikur tengdur hverjum jólasveini.
„Til dæmis má nefna að Hurðaskellir hét einnig Faldafeykir,“ segir Stefán. „Þá er ekki átt við faldinn á pilsum, heldur faldið á höfuðbúnaði skautbúningsins.“
Að sögn Stefáns verður haldið í það eftir jól að taka upp enska talsetningu á efninu og kynna alþjóðamarkaðinn fyrir íslensku jólunum.
„Við höfum reyndar lögin rammíslensk og leyfum útlendingunum bara að svitna,“ segir hann, en jólasveinarnir syngja meðal annars lög á borð við Jólasveinar ganga um gólf og Á jóladaginn fyrsta.
Stefán segir gott að gleyma ekki þjóðlegum siðum þó börn í dag þekki frekar hinn alþjóðlega „Coca-Cola-jólasvein“.
„Þetta er bara til að minna á gömlu, góðu, íslensku jólin.“
Lífið