Kantmaðurinn Jakub Blaszczykowski hjá þýska stórliðinu Borussia Dortmund tilkynnti í dag á Fésbókarsíðu sinni að hann sé með slitið krossband en hann meiddist á hægra hné í 2-2 jafntefli gegn Ausburg í gær.
Blaszczykowski meiddist strax á annarri mínútu leiksins og var skipt af leikvelli fjórum mínútum síðar.
Blaszczykowski fór í rannsókn í kjölfar leiksins og nú er ljóst að hann leikur ekki meira með liðinu á tímabilinu.
„Því miður hefur grunurinn verið staðfestur, þetta er krossband. Ég fer í aðgerð á fimmtudaginn og þá hefst endurhæfingin,“ sagði þessi fyrirliði pólska landsliðsins á Fésbókinni sinni.
Ekki hefur gengið sem skyldi hjá Dortmund á leiktíðinni en liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 33 stig í 18 leikjum, 14 stigum á eftir toppliði Bayern Munchen.
Blaszczykowski með slitið krossband
Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
