Handbolti

Eitt skota Rúnars fór á 102 km hraða í markið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kárason.
Rúnar Kárason. Vísir/AFP
Rúnar Kárason tryggði Íslandi 28-27 sigur á Pólverjum í leiknum um fimmta sætið á EM í handbolta í Danmörku í kvöld. Rúnar var einnig sá leikmaður sem átti fastasta skotið sem endaði í marknetinu í leiknum.

Eitt skota Rúnars sem endaði í markinu mældist á 102 kílómetra hraða en það var markið þegar hann minnkaði muninn í 9-12. Þetta var einmitt fyrsta mark Rúnars í leiknum en hann skoraði fjögur marka sinna í seinni hálfleiknum.

Sigurmark Rúnars, sem kom 20 sekúndum fyrir leikslok, mældist á 97 kílómetra hraða og var þriðja fastasta skotið í leiknum. Ásgeir Örn Hallgrímsson náði einnig einu skoti á 97 kílómetra hraða og fastasta skot Snorra Steins Guðjónssonar mældist á 96 kílómetra hraða.

Fjögur af sex skotum Rúnars sem enduðu í markinu í þessum flotta sigri á Pólverjum mældust á meira en 93 kílómetra hraða en hann skoraði öll sex mörkin sín í leiknum með langskotum.

Einn Pólverjanna braut líka hundrað kílómetra múrinn en eitt skota Michal Jurecki þandi netmöskvanna á 100 kílómetra hraða.

Það er hægt að sjá lista yfir skothörku leikmanna í leiknum með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×