Innlent

Samfylkingin í Kópavogi vill hækka frístundastyrk

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Samfylkingin í Kópavogi vill hækka frístundastyrk með hverju barni á árinu 2015 í 30 þúsund krónur og láta hann einnig nýtast til að greiða niður tónlistarnám. Á kjörtímabilinu öllu vill flokkurinn hækka styrkinn í 50 þúsund.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í stefnuskrá Samfylkingarinnar í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí, sem samþykkt var á félagsfundi fyrir páska.

 Framtíðarsýn og stefna Samfylkingarinnar í Kópavogi fyrir árin 2014 til 2018 felst meðal annars í:

Að skoða þann möguleika að innrita börn í grunnskóla tvisvar á ári. Um áramót á sjötta aldursári hefji börn fædd fyrri hluta árs skólagöngu og í ágúst þau sem fædd eru síðari hluta ársins. Með því að taka helming hvers árgangs fyrr á árinu inn í grunnskóla skapast rými í leikskólum. Þannig styttist tíminn sem foreldrar þurfa að brúa frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til skólakerfið tekur við. Með lengingu fæðingarorlofs verður samfellu komið á. Auk þess er munur á þroska barna sem fædd eru t.d. í janúar og í desember og út frá þeim forsendum gæti verið gott fyrir börnin að innritun í skólana fari fram tvisvar á ári.

Að byggja upp traustan og hagstæðan leigumarkað með samstarfi við húsnæðisfélög eins og Búseta og Félagsstofnun stúdenta. Enn fremur að leita leiða til að stofna hlutafélag í eigu Kópavogsbæjar sem heldur utan um félagslegt íbúðarhúsnæði bæjarins, húsnæði fyrir fatlaða og þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Markmiðið verður fjölgun íbúða og sjálfbær rekstur. Samfylkingin í Kópavogi tekur undir hugmyndir ASÍ um samstarf sveitarfélaga og ríkis um uppbyggingu á leiguhúsnæði.

Að stofnað verði öldungaráð í Kópavogi, skipað fulltrúum frá hinum ýmsu samtökum aldraðra í Kópavogi. Öldungaráðið á að vera ráðgefandi við öll málefni sem snerta málefni eldri borgara.

Að Skólahljómsveit Kópavogs komist í framtíðarhúsnæði fyrir 50 ára afmæli sveitarinnar árið 2017.

Að heimila að 2% af kosningabærum íbúum geti krafist borgarafundar um tiltekið málefni og að 10% af kosningabærum íbúum geti óskað eftir almennri atkvæðagreiðslu. Tekin verði upp hagsmunaskráning bæjarfulltrúa til birtingar á vef bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×