Innlent

Framkvæmdaleyfi við Reykjavíkurflugvöll geti fengist á næstu vikum

Hrund Þórsdóttir skrifar
Hjartað í Vatnsmýri hélt í morgun fréttamannafund á neyðarflugbraut Reykjavíkurflugvallar til að kynna það sem samtökin kalla gróf skref meirihluta borgarstjórnar síðustu vikur í átt að niðurrifi flugvallarins. Málið snýst fyrst og fremst um flugbrautina sem liggur í norð-austur, suð-vestur en hún er kölluð neyðarflugbrautin og til hennar er gripið við erfiðustu aðstæður. Samkvæmt nýju deiliskipulagi mun hún víkja.

Deiliskipulagið var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 26.mars síðastliðinn, degi síðar í borgarráði og fyrsta apríl í borgarstjórn. Málið fékk því hraða afgreiðslu og formenn Hjartans í Vatnsmýri segja meirihluta Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar í borgarstjórn, vanvirða samkomulag um sáttarferli flugvallarins frá því í fyrra. Um leið láti hann líta út fyrir að málið sé í farvegi nefndar Rögnu Árnadóttur sem koma á með tillögur um valkosti fyrir flugvöll á höfuðborgarsvæðinu.

„Það væri í raun hægt að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdir í kringum völlinn bara núna á næstu vikum og það gæti komið mjög niður á framtíðarmöguleikum og Vatnsmýrarvalkostinum innan Rögnunefndarinnar. Það er búið að þrengja mjög að þessu máli og almenningur er mjög illa upplýstur um það ferli sem hefur farið fram,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, annar formanna Hjartans í Vatnsmýri.

Samtökin eru ósátt við niðurrif fluggarða, sem Stöð 2 og Vísir hafa áður fjallað um og benda á að fyrirhuguð byggð við Hlíðarenda og í Skerjafirði eyðileggi neyðarbrautina. Völlurinn verði þá ófær til sjúkraflugs í verstu veðrum og lokunardögum fjölgi mjög, sem færi nýtingarhlutfall hans í ruslflokk.

„Völlurinn fer raunverulega undir kröfur alþjóðaflugmálastjórnar um 95% nothæfisstuðul,“ segir Njáll. Hann segir um mikilvægt kosningamál að ræða.

„Það skiptir okkur miklu máli að fólk viti að við erum þverpólitísk. Við styðjum alla sem styðja völlinn í Vatnsmýrinni.“


Tengdar fréttir

Komið að ögurstundu fyrir Reykjavíkurflugvöll

Formenn samtakanna Hjartað í Vatnsmýri segja meirihluta borgarstjórnar ekki virða samkomulag um sáttaferli flugvallarins heldur fara fram með offorsi í átt að niðurrifi hans. Samkvæmt nýsamþykktu deiliskipulagi mun neyðarflubrautin víkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×