Eykon Energy hefur valið Reyðarfjörð sem þjónustumiðstöð fyrir bæði olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar segir þetta skapa gríðarleg tækifæri. Ekki færri en fimm staðir hafa sóst eftir þessu verkefni; Akureyri, Húsavík, Vopnafjörður, Seyðisfjörður og Reyðarfjörður, - sem Eykon hefur nú valið.
Eykon er aðili að þriðja og stærsta sérleyfinu með kínverska ríkisolíufélaginu CNOOC og norska ríkisolíufélaginu Petoro. Eykon er jafnframt í fyrsta leyfinu í gegnum dótturfélag sitt, Kolvetni, ásamt Petoro og kanadíska félaginu Ithaca. Þar með hafa tveir af þremur sérleyfishöfum á Drekasvæðinu kosið Reyðarfjörð en handhafar leyfis númer tvö höfðu áður valið Húsavík.

Að sögn Hauks Óskarssonar, stjórnarmanns í Eykon og framkvæmdastjóra iðnaðar hjá verkfræðisstofunni Mannviti, var einkum þrennt sem réði úrslitum um valið á Reyðarfirði; staðsetning, innviðir og samfélag sem hefur reynslu af því að taka á móti stórum verkefnum. Í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði hafi byggst upp sterkt bakland fyrir starfsemi af þessu tagi, fjölbreytt flóra fyrirtækja hafi þar vaxið og dafnað eftir að álverið kom. Þá sé stutt í alþjóðaflugvöll á Egilsstöðum.

Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, Jens Garðar Helgason, segir þessa ákvörðun skapa gríðarleg tækifæri en í viðtali við Stöð 2 fyrir tveimur árum sagði hann Reyðarfjörð þegar hafa alla þá innviði sem þyrfti vegna þjónustu við olíuleit. Þar væri meðal annars atvinnuslökkvilið, smiðjur sem byggst hefðu upp vegna stóriðjunnar, bæði Launafl og VHE, og hafnaraðstaðan væri tilbúin með 90 metra löngum hafnarbakka og landrými í kring.
„Þannig að við erum í raun tilbúnir að taka við þessari þjónustu ef hún vill koma hingað," sagði Jens Garðar.

Vopnafjörður og Langanesbyggð hafa lengi sóst eftir þessu hlutverki en Haukur Óskarsson segir að þar sé ekki það bakland sem þurfi og í raun hafi Eykon aðeins talið Reyðarfjörð og Akureyri koma til greina. Þar hafi Reyðarfjörður vinninginn vegna staðsetningar gagnvart Drekasvæðinu.
