Viðskipti innlent

Stór áfangi að þjónustuhöfn Norðurslóða við Finnafjörð

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samstarfið handsalað í Ráðherrabústaðnum. Frá vinstri Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri Vopnafjarðar, Siggeir Stefánsson, oddviti Langanesbyggðar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Robert Howe, framkvæmdastjóri Bremenports.
Samstarfið handsalað í Ráðherrabústaðnum. Frá vinstri Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri Vopnafjarðar, Siggeir Stefánsson, oddviti Langanesbyggðar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Robert Howe, framkvæmdastjóri Bremenports. Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Oddviti Langanesbyggðar hefur fulla trúa á því að risahöfn við Finnafjörð verði að veruleika eftir að eitt stærsta hafnafyrirtæki Evrópu, Bremenports, ritaði undir samstarfssamning um að kosta mörghundruð milljóna króna undirbúningsvinnu.

Þeir þóttu sennilega nokkuð bjartsýnir sveitarstjórnarmennirnir sem fyrir áratug settu stórskipahöfn í Gunnólfsvík fyrst inn á aðalskipulag. Með þessari undirritun í Ráðherrabústaðnum á þriðjudag varð hins vegar ljóst að mönnum er full alvara að láta þessi áform rætast, samnings milli Bremenports, Langanesbyggðar og Vopnafjarðar og verkfræðistofunnar Eflu, að viðstöddum bæði forsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Samningurinn þýðir að þýska fyrirtækið ætlar á næstu þremur til fimm árum að ráðast í undirbúningsvinnu með það í huga að hægt verði að hefja framkvæmdir jafnvel árið 2018.

Grafísk mynd sem sýnir hugsanleg hafnarmannvirki.Mynd/Verkfræðistofan Efla.

„Þetta er mjög stór áfangi í því að Ísland nýti þessi risastóru tækifæri sem felast í legu landsins og þróuninni á Norðurslóðum,” sagði Sigmundur Davíð Gunnaugsson forsætisráðherra. “Þetta er eitthvað sem mun hafa áhrif allt frá Eyjafirði að suðurfjörðum Austfjarða, bein áhrif, en til lengri tíma litið auðvitað mikil áhrif fyrir landið allt,” sagði forsætisráðherra.



Þýska fyrirtækið Bremenports áformar að leggja nokkur hundruð milljónir króna í rannsóknirnar. Það á og rekur fjórðu stærstu höfn Evrópu. Siggeir Stefánsson, oddviti Langanesbyggðar, segir að þeir séu sérfræðingar í þessum málum og hafi í mörg ár verið að skoða heiminn og samhengi hlutanna. Þeirra niðurstaða sé að Íslands sé áhugaverðasti staðurinn til að skoða til hlýtar.

Höfnin er áformuð í botni Finnafjarðar við Bakkaflóa í krikanum sunnan við Langanes. Næstu þéttbýli eru Þórshöfn og Bakkafjörður.

Þjóðverjarnir segjast raunar sannfærðir um Ísland sé í lykilstöðu. Robert Howe, framkvæmdastjóri Bremenports, segir að ný siglingaleið, norðausturleiðin, og - á næstu 10-20 árum, - leiðin yfir pólinn, muni hafa áhrif á Íslandi. 



„Það þýðir að einmitt hérna á norðausturhluta Íslands er mikilvægt og nauðsynlegt að koma upp nýrri höfn,” segir framkvæmdastjóri Bremenports.

Miðleiðin yfir pólinn með umskipunarhöfn við Langanes.

Þegar oddviti Langanesbyggðar var spurður hvort hann hefði trú á því að þessi áform yrðu að veruleika svaraði hann: 



„Já, ég hef trú á því. Þetta er allavegana þess virði að skoða til hlýtar og ég hef trú á því að þetta geti orðið. Það eru allavega allar aðstæður og umhverfi til að svo geti orðið,” sagði Siggeir Stefánsson.


Tengdar fréttir

Risahöfn og olíuiðnaður inn á skipulag Langanesbyggðar

Skipulagsstofnun hefur fallist á aðalskipulag Langanesbyggðar sem gerir ráð fyrir risahöfn í Finnafirði og lóðum undir olíu- og gasiðnað og bíður það nú staðfestingar umhverfisráðherra. Sveitarstjórnarmenn á Norðausturlandi hafa lengi horft til þeirra tækifæra sem siglingar yfir Norðurheimskautið og olíuleit gætu skapað og komu stórskipahöfn í Gunnólfsvík við Langanes inn á aðalskipulag fyrir átta árum.

Þjónustuhöfn fyrir Austur Grænland á Ísafirði

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar stefnir að auknum umsvifum og þjónustu Ísafjarðarhafnar, meðal annars með því að efla höfnina sem þjónustumiðstöð fyrir Austur Grænland. Samþykkt hefur verið að atvinnumálanefnd og hafnarstjórn bæjarins vinni tillögur sem fyrst um málið.

Óska eftir að Húsavík verði þjónustuhöfn Drekasvæðis

Olíufélög sem undirbúa leit á Drekasvæðinu hafa óskað eftir því að Húsavík verði þjónustuhöfn fyrir borpalla. Umsókn um lóð hefur verið send til bæjarráðs Norðurþings, sem tekur jákvætt í erindið. Fyrstu tvö sérleyfin voru afhent í byrjun janúar og merki sjást nú um að félögin eru byrjuð að undirbúa leitina. Fulltrúar annars leyfishafans, Íslensks kolvetnis, Faroe Petroleum og Petoro, hafa nú sótt um lóð við Húsavíkurhöfn undir aðstöðu til að þjónusta leitarborpalla. Í fundargerð bæjarráðs Norðurþings kemur fram að óskað er eftir svæði til að geyma pípur og borstangir, svæði fyrir sementstanka og leðjutanka, lóð undir vöruhús og tengingum við vatn, olíu og rafmagn.

Olíuleitin hafin við Austur-Grænland

Olíurisar eins og Shell, Statoil, BP, Chevron og Conoco Philips eru meðal níu olíufélaga sem Grænlendingar úthlutuðu nýjum sérleyfum á föstudag. Akureyri og Eyjafjörður vilja bita af kökunni.

Eyfirðingar þjónusta olíuleitarflota af Drekasvæðinu

Floti fjögurra olíurannsóknarskipa kom inn til Akureyrar í dag af Drekasvæðinu til að sækja sér vistir og þjónustu sem og til áhafnaskipta. Eyfirðingar fá þarna forsmekkinn af þeim umsvifum sem vaxandi olíuleit í Norðurhöfum gæti skapað á Íslandi á næstu árum. Rannsóknarskipið Nordic Explorer fer fyrir flotanum en með því eru þrjú fylgdarskip, tvö færeysk og eitt íslenskt, Valberg VE.

Íslensk fyrirtæki á tánum vegna olíuleitar við Austur-Grænland

Ellefu olíufélög sóttu um sérleyfi norðan Íslands í fyrsta útboði olíuvinnsluleyfa við austurströnd Grænlands. Eimskip er meðal fyrirtækja sem sjá fram á mikil tækifæri en forstjórinn segir kjörið að þjónustumiðstöðin verði á Norðurlandi. Olíuleit Grænlendinga hefur til þessa verið bundin við vesturströndina og í fyrra var skoskt olíufélag bæði með borskip og borpall um 150 kílómetra vestur af Diskó-flóa. Nú er olíuleitin einnig að færast til austurstrandarinnar, að þeirri hlið Grænlands sem snýr að Íslandi. Nýjasta útboðssvæðið er í hánorður af Íslandi og sóttu ellefu félög um sérleyfi í þremur hópum, en umsóknarfrestur rann út 15. desember.

Fyrsti áfangi í Finnafirði myndi kosta 18 milljarða

Verði umskipunarhöfn byggð upp í Finnafirði nemur heildarfjárfestingin tugum milljarða. Þýska fyrirtækið Bremenport ætlar að verja um 450 milljónum í rannsóknir á næstu þremur árum. Viðlegukantar hafnarinnar yrðu 3 til 5 kílómetrar.

Reyðarfjörður valinn sem olíubær Íslands

Eykon Energy hefur valið Reyðarfjörð sem þjónustumiðstöð fyrir bæði olíuleit og olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar segir þetta skapa gríðarleg tækifæri.

Norðmenn skoða Ísland sem þjónustumiðstöð olíuleitar

Norðmenn gera í nýrri skýrslu um olíuleit á Noregshluta Jan Mayen-hryggjarins ráð fyrir þeim möguleika að þjónustunni verði sinnt frá Íslandi. Þrefalt lengra er að þjónusta borpalla frá Noregi. Það eru ekki bara Íslendingar sem áforma olíuleit á Jan Mayen-svæðinu. Norðmenn eru einng komnir á fullt við að undirbúa leit sín megin og miðað við þann kraft sem þeir hafa nú sett í málið gæti svo farið að þeir verði fyrri til að hefja boranir á svæðinu, jafnvel árið 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×