„Hann breytti alveg atkvæði mínu,“ segir Anna Rós Jensdóttir, íbúi í Garðabæ, um framtak Einars Karls Birgissonar, oddvita Framsóknarflokksins í bænum. Anna Rós segist ekki hafa hugsað sér að kjósa Framsóknarflokkinn fyrr en Einar brá sér í líki bifvélavirkja og skipti um dekk á bílnum hennar fyrr í dag.
„Við vorum að labba um með Framsóknarkaffi, að dreifa því í hús í hverfinu,“ segir Einar Karl um tildrög dekkjaskiptanna. „Við sáum svo þessa konu í bílnum sínum fyrir utan eina blokkina. Hún situr þarna í öngum sínum og við bönkuðum bara á gluggann og buðum hjálp.“
Einar gerði sér svo lítið fyrir og skipti um dekk hjá Önnu, sem var þá á leið að hringja á aðstoð. Hún festi atvikið á mynd og deildi með vinum sínum á Facebook, svo að góðverkið hlyti örugglega verðskuldaða athygli.
„Hann er í einu orði sagt yndislegur, þessi drengur,“ segir Anna um frambjóðandann og kveðst ætla að greiða atkvæði með Framsóknarflokknum á morgun.
„Maður leggur ýmislegt á sig á síðustu metrunum í kosningabaráttu,“ segir Einar Karl léttur. „Og það er alltaf gott að geta gert góðverk.“
Innlent