Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri og oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi mun halda fund með fulltrúaráði sjálfstæðismanna í bænum klukkan hálfellefu fyrir hádegi þar sem málefnasamningur Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar verður kynntur.
Gengið er út frá því að Ármann verði áfram bæjarstjóri. Ármann sagði í samtali við fréttastofu í morgun að viðræðurnar hefðu gengið vel.
Trúnaður, traust og gagnkvæmur skilningur hefði ríkt milli manna. Hann var hins vegar ekki tilbúinn að fara efnislega í samninginn en hann verður kynntur fyrir fréttamönnum klukkan eitt eftir hádegi, fari svo að fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins samþykki hann.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru ekki spenntir fyrir meirihlutamyndun með Framsóknarflokknum og því lá fyrir býsna snemma að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að ræða við Bjarta framtíð.
Nýr meirihluti myndaður í Kópavogi
Þorbjörn Þórðarson skrifar
