Gunnar og Story voru báðir til viðtals í hlaðvarpsþætti breska blaðamannsins Gareth A Davies sem skrifað hefur um hnefaleika og blandaðar bardagalistir (e. MMA) í rúma tvo áratugi. Davies er einnig með MMA-sjónvarpsþátt á BT Sport.
„Þetta er alveg frábært. Ég er virkilega spenntur. Það er algjör draumur að berjast í aðalbardaganum hjá frændum mínum hérna í Svíþjóð,“ sagði Gunnar sem var staddur í Svíþjóð þegar Davis heyrði í honum hljóðið.

„Ég fór einmitt í mótorhjólaferð yfir hálendið á dögunum og við keyrðum framhjá eldfjallinu. Þessi staður verður líklega aldrei eins aftur og þegar ég var þar,“ sagði Gunnar.
Aðspurður hvort það mætti búast við íslensku eldgosi í Stokkhólmi þann 4. október svaraði Gunnar: „Ekki spurning. Það er nákvæmlega þannig.“
Rick Story er ekkert lamb að leika sér við, en hann hefur unnið tíu af 16 bardögum sínum í UFC. Hvernig hyggst Gunnar undirbúa sig?
„Eins og ég undirbý mig alltaf. Ég er alltaf að þróa minn leik og ég verð alltaf betri í öllum þáttum íþróttarinnar.“
„Rick er sterkur glímumaður, fljótur og höggþungur. Hann getur neglt þig niður hvenær sem er sem gerir hann hættulegan. Ég er virkilega spenntur fyrir því að takast á við hann,“ sagði Gunnar.
Gunnar stefndi að því að fara til Las Vegas í æfingabúðir með ConorMcGregor fyrir bardagann í Stokkhólmi, en breyting er á.
„Við ætluðum til Las Vegas en æfingabúðirnar verða í Dyflinni þar sem ég og CathalPendart berjumst báðir í Svíþjóð. Við munum æfa í Dyflinni og Conor ætlar aðeins seinna en áætlað var til Vegas. Ég fer bara til Vegas eftir þennan bardaga.“

Davies spurði Bandaríkjamanninn beint út hvort hann væri einfaldlega lamb sem fórnað verður fyrir Gunnar í Svíþjóð þar sem Íslendingurinn verður nánast á heimavelli.
„Sumir líta á það þannig, en það geri ég ekki. Þetta er frábær bardagi fyrir mig og gefur mér tækifæri á að sýna að ég get klifrað aftur á toppinn,“ sagði Story sem hefur miklar mætur á Gunnari.
„Gunnar hefur staðið sig frábærlega í UFC. Allt frá því ég sá hann í fyrsta skipti vissi ég að hann myndi komast hratt á toppinn. Því er ég mjög spenntur að mæta Gunnari og sérstaklega í Svíþjóð.“
Þó Story sé kallaður „The Horror Story“ eða hryllingssagan er hann rólegur maður. Því er ekki búist við látum þegar þeir hittast í myndatökum og vigtun fyrir bardagann.
„Nei, ég fer ekki inn í bardaga í neinum illindum. Frá mínum bæjardyrum séð er Gunnar virkilega ljúfur gaur,“ sagði hann.
Bandaríkjamaðurinn er spenntur fyrir tækifærinu að berjast við Gunnar.
„Þetta er bardagi fyrir hann til að sýna hversu góður hann er og eins fyrir mig að sýna hvað ég get. Fyrir síðasta bardaga skipti ég um æfingastað og stóð mig vel. Við höfum báðir eitthvað að sanna í þessum baradaga,“ sagði Rick Story.
Viðtalið við Gunnar er frá 01:37-11:44 og viðtalið við Rick Story frá 54:47-1:07:22 í spilaranum hér að neðan.