Sport

Er verið að fórna Story fyrir Gunnar?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Bandaríkjamaðurinn Rick Story segist velta fyrir sér hvort hann hafi verið valinn sem „fórnarlamb“ fyrir Gunnar Nelson en þeir mætast í búrinu á UFC-bardagakvöldi í Stokkhólmi á laugardag.

Eins og fram kemur í frétt á vefsíðu ESPN vestanhafs þá er hinn þrítugi Story ekki meðal fremstu bardagakappa UFC í sínum þyngdarflokki um þessar mundir. Hann hefur unnið fjóra af síðustu níu bardögum sínum og er ekki ofarlega á styrkleikalista UFC.

Engu að síður fær hann nú tækifæri til að taka þátt í aðalbardaga kvöldsins í fyrsta sinn á sínum ferli í UFC en hann segir að það hafi komið honum sérstaklega á óvart.

„Það kom mér nokkuð á óvart að ég hafi fengið aðalbardagann á kortinu,“ sagði Story. „Svo settist ég niður og íhugaði málið. Ég áttaði mig á því að Gunnar er þaðan [í grennd við Svíþjóð].“

„Þeir vilja sjá hvort að hann sé tilbúinn til að taka næsta skref. Kannski er ég því fórnarlamb fyrir Gunnar svo hann geti notað þennan bardaga til að koma sér í hóp tíu efstu á styrkleikalistanum.“

Samtals hefur Story unnið sautján af 25 bardögum sínum á ferlinum en Gunnar er enn taplaus með þrettán sigra í fjórtán viðureignum. Veðbankar telja að Gunnar sé mun sigurstranglegri á laugardagskvöld.

Í grein ESPN er haft eftir Gunnari að hann fái nú tækifæri til að berjast við mann sem býr yfir mikilli reynslu og barist gegn öflugum köppum. Þess má geta að Story er aðeins annar tveggja manna sem hefur unnið Johny Hendricks, ríkjandi UFC-meistara í veltivigt.

„Þetta er tækifæri fyrir mig að vaxa sem og að koma nafni mínu á framfæri - klifra hraðar upp stigann. Komast hærra og fá meiri pening,“ var haft eftir Gunnari í greininni.

Story segir enn fremur frá erfiðleikum sínum undanfarin ár en hann fyrr á þessu ári skipti hann um þjálfara en hefur átt í miklum deilum við Pat White, fyrrum þjálfara sinn. Hann segir að þjálfarabreytingin hafi haft afar jákvæð áhrif á sig.

Bardagi Gunnars Nelson verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á laugardagskvöldið. Fáðu þér áskrift í síma 512-5100 eða smelltu hér.

MMA

Tengdar fréttir

Leiðin að búrinu: Gunnar Nelson vs. Rick Story

Aðeins fimm dagar eru í UFC bardaga Gunnars Nelson í Stokkhólmi. Gunnar mætir Bandaríkjamanninum Rick Story í aðalbardaga kvöldsins í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×