Enski boltinn

38 ára og bara einu stigi frá persónulegu stigameti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Darrel Keith Lewis.
Darrel Keith Lewis. Vísir/Valli
Darrel Keith Lewis átti rosalegan leik á sínum gamla heimavelli í gærkvöldi þegar lið hans Tindastóll hélt sigurgöngu sinni áfram í Dominos-deild karla í körfubolta með því að vinna Grindavík 102-97.

Darrel Keith Lewis skoraði alls 45 stig í leiknum en hann hitti úr 18 af 24 skotum sínum utan af velli sem gerir 75 prósent skotnýtingu. Lewis þurfti því aðeins 24 skot til að skora þessi 45 stig.

Darrel Keith Lewis var aðeins einu stigi frá því að bæta sitt persónulega met í úrvalsdeild karla en hann skorað 46 stig á móti Hamar/Selfoss sem leikmaður Grindavíkur 18. október 2004 eða fyrir rúmum áratug. Lewis þurfti þá 25 skot til að skora sín stig. Þetta var þriðji 40 stiga leikur hans í úrvalsdeild karla.

Lewis bætti hinsvegar árangur Tracy Smith Jr. sem var fyrir þennan leik sá leikmaður deildarinnar sem hafði skorað flest stig í einum leik í Dominos-deildinni í vetur. Tracy Smith Jr. skoraði 44 stig fyrir Skallagrím á móti Fjölni 6. nóvember. Þeir tveir eru þeir einu sem hafa komist yfir 40 stiga múrinn í deildinni í vetur.

Darrel Keith Lewis kom til Tindastóls fyrir þetta tímabil en hann hafði spilað með Keflavík undanfarnar tvær leiktíðir. Hann lék sína þrjú tímabil á sínum tíma með Grindavík frá 2002 til 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×