Körfubolti

Toronto og Memphis eiga bestu þjálfarana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dave Joerger, þjálfari Memphis Grizzlies, sem var með besta sigurhlutfall allra liða í fyrsta mánuði NBA-tímabilsins.
Dave Joerger, þjálfari Memphis Grizzlies, sem var með besta sigurhlutfall allra liða í fyrsta mánuði NBA-tímabilsins. Vísir/Getty
Dwane Casey, þjálfari Toronto Raptors, og Dave Joerger, þjálfari Memphis Grizzlies, voru valdir bestu þjálfarar nóvembermánaðar í NBA-deildinni í körfubolta en bæði liðin hafa byrjað tímabilið frábærlega.

Þeir Dwane Casey og Dave Joerger eru vissulega ekki frægustu nöfnin meðal þjálfara NBA-deildarinnar en eru báðir búnir að byggja upp lið sem eru til alls líkleg í vetur.

Dwane Casey var valinn sá besti í Austurdeildinni en Toronto Raptors liðið vann 13 af 17 leikjum sínum í nóvember (og október) sem gerir 76,5 prósent sigurhlutfall. Toronto vann meðal annars fimm leiki í röð frá 4. til 11. nóvember þar sem liðið vann með 14 stigum að meðaltali í leik. Liðið vann síðan sex leiki í röð frá 15. til 26. nóvember með 16 stigum að meðaltali í leik.

Dave Joerger var valinn sá besti í Vesturdeildinni en Memphis Grizzlies vann 15 af 17 leikjum sínum í nóvember (og október) sem gerir 88,2 prósent sigurhlutfall og var besti árangurinn í allri NBA-deildinni á þessum tíma. Grizzlies-liðið vann meðal annars alla átta heimaleiki sína á þessu tíma og alla 11 leiki sína á móti liðum úr Vesturdeildinni.

Aðrir sem komu til greina voru Mike Budenholzer (Atlanta Hawks), Tom Thibodeau (Chicago Bulls), Rick Carlisle (Dallas Mavericks), Steve Kerr (Golden State Warriors), Kevin McHale (Houston Rockets), Doc Rivers (Los Angeles Clippers), Jason Kidd (Milwaukee Bucks) , Terry Stotts (Portland Trailblazers), Gregg Popovich (San Antonio Spurs) og Randy Wittman (Washington Wizards).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×