Áfall Þorsteinn Pálsson skrifar 25. janúar 2014 06:00 Áfall; enginn vegur er að finna annað orð um úrslitin í atkvæðagreiðslu um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þetta er áfall fyrir forystu Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, áfall fyrir ríkisstjórnina, áfall fyrir þjóðarbúskapinn og áfall fyrir fólkið í landinu. Í raun snerist þessi atkvæðagreiðsla fyrst og fremst um verðbólgu. Samningarnir mæltu ekki fyrir um miklar kauphækkanir. Augljóst var að markmið þeirra var fyrst og fremst að verja kjör með því að stuðla að stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Þetta var raunhæf og ábyrg niðurstaða í þröngri stöðu þjóðarbúsins. Erfitt er að svara þeirri spurningu hvers vegna ábyrg sjónarmið eiga ekki upp á pallborðið í ríkari mæli en raun varð á. En fram hjá því verður ekki horft að boðskapur forsætisráðherra í áramótaávarpinu veikti verulega málsvörn þeirra verkalýðsforingja sem boðuðu raunsæi í þessum samningum. Ummæli hans um nauðsyn þess að hækka lægstu laun og rétta hlut millistéttarinnar hafa vafalaust verið hugsuð inn í framtíðina. En vandinn er sá að þau voru látin falla í byrjun atkvæðagreiðslu um annan veruleika. Það er viðkvæmur tímapunktur. Hver sem hugsunin var virkuðu þau sem haldreipi fyrir þá sem risu upp gegn ábyrgð og varkárni. Þegar til átti að taka urðu nógu margir til þess að grípa í þetta haldreipi. Afleiðingin blasir við. Hún sýnir hversu varasamt það er þegar varfærin langtímasjónarmið víkja fyrir stundar popúlisma. Laun hækka í kjarasamningum en kjörin batna ekki nema framleiðniaukning standi að baki. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem von um launahækkanir er vakin áður en framleiðniaukningin er orðin að veruleika; og ekki í fyrsta skipti sem það kemur mönnum í klípu.Framtíðarsýn í uppnámi Forystumenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins hafa um nokkra hríð boðað nýja hugsun í gerð kjarasamninga. Markmiðið með henni var að finna öruggari leið til að bæta kjörin með raunverulegum verðmætum. Það gerist hægt og bítandi en ekki í stökkum. Í þessum tilgangi hafa samtökin leitað í smiðju til aðila vinnumarkaðarins annars staðar á Norðurlöndunum. Ætlunin var að kjarasamningarnir nú yrðu eins konar inngangskafli að langtíma samningum sem styddust við vöxt og stöðugleika. Þessi framtíðarsýn þarf ekki að vera úr sögunni. En hún er enn á ný í uppnámi. Norðurlöndin hafa náð lengra en við í að tryggja góð lífskjör. Lykillinn að þeim árangri er að samkeppnishæfni hvers lands hefur ráðið hverju skrefi til kjarabóta. Óskhyggja um bætta samkeppnisstöðu hefur engu breytt, aðeins raunverulegur árangur. Stóra spurningin núna er þessi: Munu þeir sem talað hafa fyrir ábyrgð leggja árar í bát eftir þessi úrslit? Það væri vissulega um margt skiljanlegt. Hitt er þó meira um vert að halda róðrinum áfram þó að hann hafi þyngst. Þar mun mest mæða á ríkisstjórninni. Aðeins markviss forysta af hennar hálfu getur létt róðurinn. Flest benti til að ríkisstjórnin gæti haft almennu samningana sem fyrirmynd gagnvart opinberum starfsmönnum. Það hefur snúist við. Staðan er því flóknari en áður og þolir enn síður popúlísk viðhorf.Þörf á nýju frumkvæði Engin haldbær rök eru fyrir því að ríkið hefði átt að draga frekar úr tekjuöflun sinni og þar með velferðarþjónustu til að greiða fyrir samningum. Kröfur stjórnarandstöðunnar þar um eru óábyrgur popúlismi. Nær væri að gera kröfur um meira borð fyrir báru og frekari niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs. Hitt stendur upp á ríkisstjórnina að kynna trúverðuga stefnu í peningamálum sem er raunveruleg forsenda stöðugleikasamninga. Rök standa því til þess að kalla eftir traustari hugmyndum í gjaldmiðilsmálum. En stjórnarandstaðan lætur það vera. Ríkisstjórnin þarf jafnframt að taka frumkvæði í þeim kerfisbreytingum í þjóðarbúskapnum sem fjallað er um í McKinsey-skýrslunni. Hún sýndi að framleiðni í íslensku atvinnulífi er langt að baki því sem grannþjóðir okkar hafa náð. Við erum nær Grikkjum en þeim. Hljótt hefur verið um starf samráðsvettvangs um þessa merku skýrslu. Alvarlegra er þó að verulega hefur á skort að ríkisstjórnin sýndi ákveðinn vilja til að breyta hugmyndum hennar í veruleika. Í skýrslunni eru sett fram róttæk sjónarmið um kerfisbreytingar og þau grundvallast á virkri alþjóðasamvinnu. Hugsanlega er hún of frjálslynd og ekki nógu þjóðleg fyrir ríkisstjórnina. Veruleikinn er sá að framleiðni sem er forsenda framfara mun láta á sér standa ef sú frjálslynda hugmyndafræði sem birtist í skýrslunni verður ekki lögð til grundvallar nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Aðeins með því móti verður unnt að styrkja samkeppnishæfnina og bæta kjörin. Hér þarf ríkisstjórnin að sýna nýtt frumkvæði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun
Áfall; enginn vegur er að finna annað orð um úrslitin í atkvæðagreiðslu um kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þetta er áfall fyrir forystu Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins, áfall fyrir ríkisstjórnina, áfall fyrir þjóðarbúskapinn og áfall fyrir fólkið í landinu. Í raun snerist þessi atkvæðagreiðsla fyrst og fremst um verðbólgu. Samningarnir mæltu ekki fyrir um miklar kauphækkanir. Augljóst var að markmið þeirra var fyrst og fremst að verja kjör með því að stuðla að stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Þetta var raunhæf og ábyrg niðurstaða í þröngri stöðu þjóðarbúsins. Erfitt er að svara þeirri spurningu hvers vegna ábyrg sjónarmið eiga ekki upp á pallborðið í ríkari mæli en raun varð á. En fram hjá því verður ekki horft að boðskapur forsætisráðherra í áramótaávarpinu veikti verulega málsvörn þeirra verkalýðsforingja sem boðuðu raunsæi í þessum samningum. Ummæli hans um nauðsyn þess að hækka lægstu laun og rétta hlut millistéttarinnar hafa vafalaust verið hugsuð inn í framtíðina. En vandinn er sá að þau voru látin falla í byrjun atkvæðagreiðslu um annan veruleika. Það er viðkvæmur tímapunktur. Hver sem hugsunin var virkuðu þau sem haldreipi fyrir þá sem risu upp gegn ábyrgð og varkárni. Þegar til átti að taka urðu nógu margir til þess að grípa í þetta haldreipi. Afleiðingin blasir við. Hún sýnir hversu varasamt það er þegar varfærin langtímasjónarmið víkja fyrir stundar popúlisma. Laun hækka í kjarasamningum en kjörin batna ekki nema framleiðniaukning standi að baki. Þetta er því miður ekki í fyrsta skipti sem von um launahækkanir er vakin áður en framleiðniaukningin er orðin að veruleika; og ekki í fyrsta skipti sem það kemur mönnum í klípu.Framtíðarsýn í uppnámi Forystumenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins hafa um nokkra hríð boðað nýja hugsun í gerð kjarasamninga. Markmiðið með henni var að finna öruggari leið til að bæta kjörin með raunverulegum verðmætum. Það gerist hægt og bítandi en ekki í stökkum. Í þessum tilgangi hafa samtökin leitað í smiðju til aðila vinnumarkaðarins annars staðar á Norðurlöndunum. Ætlunin var að kjarasamningarnir nú yrðu eins konar inngangskafli að langtíma samningum sem styddust við vöxt og stöðugleika. Þessi framtíðarsýn þarf ekki að vera úr sögunni. En hún er enn á ný í uppnámi. Norðurlöndin hafa náð lengra en við í að tryggja góð lífskjör. Lykillinn að þeim árangri er að samkeppnishæfni hvers lands hefur ráðið hverju skrefi til kjarabóta. Óskhyggja um bætta samkeppnisstöðu hefur engu breytt, aðeins raunverulegur árangur. Stóra spurningin núna er þessi: Munu þeir sem talað hafa fyrir ábyrgð leggja árar í bát eftir þessi úrslit? Það væri vissulega um margt skiljanlegt. Hitt er þó meira um vert að halda róðrinum áfram þó að hann hafi þyngst. Þar mun mest mæða á ríkisstjórninni. Aðeins markviss forysta af hennar hálfu getur létt róðurinn. Flest benti til að ríkisstjórnin gæti haft almennu samningana sem fyrirmynd gagnvart opinberum starfsmönnum. Það hefur snúist við. Staðan er því flóknari en áður og þolir enn síður popúlísk viðhorf.Þörf á nýju frumkvæði Engin haldbær rök eru fyrir því að ríkið hefði átt að draga frekar úr tekjuöflun sinni og þar með velferðarþjónustu til að greiða fyrir samningum. Kröfur stjórnarandstöðunnar þar um eru óábyrgur popúlismi. Nær væri að gera kröfur um meira borð fyrir báru og frekari niðurgreiðslu á skuldum ríkissjóðs. Hitt stendur upp á ríkisstjórnina að kynna trúverðuga stefnu í peningamálum sem er raunveruleg forsenda stöðugleikasamninga. Rök standa því til þess að kalla eftir traustari hugmyndum í gjaldmiðilsmálum. En stjórnarandstaðan lætur það vera. Ríkisstjórnin þarf jafnframt að taka frumkvæði í þeim kerfisbreytingum í þjóðarbúskapnum sem fjallað er um í McKinsey-skýrslunni. Hún sýndi að framleiðni í íslensku atvinnulífi er langt að baki því sem grannþjóðir okkar hafa náð. Við erum nær Grikkjum en þeim. Hljótt hefur verið um starf samráðsvettvangs um þessa merku skýrslu. Alvarlegra er þó að verulega hefur á skort að ríkisstjórnin sýndi ákveðinn vilja til að breyta hugmyndum hennar í veruleika. Í skýrslunni eru sett fram róttæk sjónarmið um kerfisbreytingar og þau grundvallast á virkri alþjóðasamvinnu. Hugsanlega er hún of frjálslynd og ekki nógu þjóðleg fyrir ríkisstjórnina. Veruleikinn er sá að framleiðni sem er forsenda framfara mun láta á sér standa ef sú frjálslynda hugmyndafræði sem birtist í skýrslunni verður ekki lögð til grundvallar nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Aðeins með því móti verður unnt að styrkja samkeppnishæfnina og bæta kjörin. Hér þarf ríkisstjórnin að sýna nýtt frumkvæði.