Skoðun

Verjum mikil­væga starf­semi Ljóssins

Guðbjörg Jónsdóttir, Helga Tryggvadóttir og Sigurdís Haraldsdóttir skrifa

Mikilvægi þess að krabbameinsgreindir hafi aðgang að góðri endurhæfingarþjónustu er ótvírætt, hvort sem tilgangur þjónustunnar er að viðhalda færni og getu í baráttu við ólæknandi mein eða að komast aftur til baka inn í lífið og á vinnumarkað eftir að meðferð gegn krabbameini er lokið.

Ljósið er eina sérhæfða endurhæfingarmiðstöðin sem er í boði fyrir krabbameinsgreinda á Íslandi. Starfsemin er því gríðarlega mikilvæg fyrir þennan hóp sem getur þangað sótt alhliða þjónustu sem byggir á þverfaglegri nálgun þar sem unnið er samkvæmt gagnreyndum rannsóknum. Í Ljósinu er boðið upp á markvissa þjálfun sem sniðin er að þörfum einstaklinga í krabbameinsmeðferð. Að auki geta krabbameinsgreindir sótt þangað dýrmætan jafningjastuðning.

Áform ríkisstjórnarinnar um að draga úr fjárframlögum til þessarar mikilvægu starfsemi koma því augljóslega illa við viðkvæman hóp krabbameinsgreinda. Við teljum að slíkur niðurskurður hljóti að leiða til tafa á hinu mikilvæga endurhæfingarferli með tilheyrandi vandamálum og lífsgæðaskerðingu.

Sýnt hefur verið fram á mikilvægi reglubundinnar hreyfingar fyrir krabbameinsgreinda. Nýleg rannsókn sýndi fram á að reglubundin hreyfing getur dregið úr endurkomutíðni og aukið lifun sjúklinga með ristilkrabbamein í læknanlegri meðferð. Einnig hefur sýnt sig að reglubundin hreyfing getur dregið úr aukaverkunum margra lyfja sem er sérlega mikilvægt í ljósi þess að margir krabbameinsgreindra þurfa að taka lyf til langs tíma, jafnvel árum saman.

Það er okkar reynsla að sá stuðningur sem veittur er í Ljósinu sé ómetanlegur fyrir einstaklinga sem glíma við afleiðingar krabbameina og meðferðar vegna þeirra. Fyrir hönd Félags íslenskra krabbameinslækna hvetjum við stjórnvöld til að endurskoða áform um niðurskurð svo tryggja megi áfram þá mikilvægu starfsemi sem veitt er í Ljósinu.

Höfundar eru krabbameinslæknar og sitja í stjórn Félags íslenskra krabbameinslækna.




Skoðun

Sjá meira


×