Tollvernd fyrir buffalabændur Ólafur Þ. Stephensen skrifar 6. febrúar 2014 06:00 Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti, sagði frá því í gær að smásölufyrirtækið Hagar hefði farið fram á við atvinnuvegaráðuneytið að það felldi niður tolla á innfluttum ostum úr geita-, buffala- og ærmjólk. Rök fyrirtækisins eru að framleiðsla á þessum ostum sé hverfandi hér á landi. „Við teljum eðlilegt að þegar skortur er á vörum og innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn, þá séu þær fluttar inn án gjalda og tolla,“ sagði Finnur Árnason, forstjóri Haga, í Markaðnum. Beiðni Haga er fullkomlega eðlileg. Rökin fyrir ofurtollunum, sem lagðir eru á sumar innfluttar landbúnaðarvörur, eru að verið sé að vernda innlenda framleiðendur fyrir samkeppni. Búvörur sem ekki eru í samkeppni við innlenda vöru, til dæmis kornmatur og ávextir, eru tollfrjálsar. Hins vegar virðast gæzlumenn landbúnaðarkerfisins oft líta svo á að kjöt sé bara kjöt og mjólk bara mjólk. Að minnsta kosti eru allar kjöt- og mjólkurvörur sem fluttar eru til landsins tollaðar upp í topp, þótt oft sé engin sambærileg innlend vara til. Eins og fram kemur í beiðni Haga eru ostar framleiddir úr alls konar mjólk. Á Íslandi eru þeir búnir til nánast eingöngu úr kúamjólk. Ostarnir sem Hagar vilja fá að flytja inn eru ekki sambærilegir við neina osta sem eru framleiddir á Íslandi. Ekkert hefur frétzt af buffalabúunum, mjólkandi geitur á landinu eru örfáar og einhverra hluta vegna eru sauðfjárbændur hættir að færa frá og mjólka ærnar til að búa til ost úr mjólkinni. Það er því vandséð af hverju á að leggja ofurtolla á innflutta osta úr mjólk þessara dýrategunda. Sama á við í kjötinu. Fréttablaðið sagði frá því fyrir stuttu að verzlanir sem vilja selja lífrænt ræktaðan kjúkling fengju hann ekki hjá innlendum framleiðendum, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Finnur Árnason bendir á hversu fáránlegt þetta fyrirkomulag er. Ofurtollar eru lagðir á lífrænan kjúkling sem fluttur er inn frá útlöndum til að vernda framleiðendur sem eru ekki til í að fjölga kostum neytenda með því að rækta lífrænan kjúkling. Svipað á við um ýmsa villibráð, sem er ekki skotin á Íslandi. Landbúnaðarkerfið tollar kengúrukjöt í drasl, svo dæmi sé tekið. Til að vernda hvað? Fyrirfram, svona miðað við reynsluna síðustu áratugi, má gera ráð fyrir að svar atvinnuvegaráðuneytisins við beiðni Haga sé nei. En þó eru til nýleg fordæmi, sem benda til að jafnvel þar á bæ séu menn byrjaðir að átta sig á að kjöt sé ekki bara kjöt eða mjólk bara mjólk. Þannig voru tollar á nautakjöti lækkaðir þegar skortur var á því innanlands, þrátt fyrir að nægt framboð væri til dæmis af blessuðu lambakjötinu. Finnur Árnason vitnar líka til þess hvað ráðuneytið var dæmalaust lipurt við Mjólkursamsöluna þegar hún fékk að flytja inn írskt smjör til að fyrirbyggja vöruskort fyrir jólin. Einhver nefnd í ráðuneytinu fundar í lok vikunnar um beiðni Haga. En auðvitað er það atvinnuvegaráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem hefur síðasta orðið. Ætlar hann að standa með neytendum og hagsmunum þeirra eða halda áfram að tollvernda innlenda buffalabændur sem eru ekki til? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti, sagði frá því í gær að smásölufyrirtækið Hagar hefði farið fram á við atvinnuvegaráðuneytið að það felldi niður tolla á innfluttum ostum úr geita-, buffala- og ærmjólk. Rök fyrirtækisins eru að framleiðsla á þessum ostum sé hverfandi hér á landi. „Við teljum eðlilegt að þegar skortur er á vörum og innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn, þá séu þær fluttar inn án gjalda og tolla,“ sagði Finnur Árnason, forstjóri Haga, í Markaðnum. Beiðni Haga er fullkomlega eðlileg. Rökin fyrir ofurtollunum, sem lagðir eru á sumar innfluttar landbúnaðarvörur, eru að verið sé að vernda innlenda framleiðendur fyrir samkeppni. Búvörur sem ekki eru í samkeppni við innlenda vöru, til dæmis kornmatur og ávextir, eru tollfrjálsar. Hins vegar virðast gæzlumenn landbúnaðarkerfisins oft líta svo á að kjöt sé bara kjöt og mjólk bara mjólk. Að minnsta kosti eru allar kjöt- og mjólkurvörur sem fluttar eru til landsins tollaðar upp í topp, þótt oft sé engin sambærileg innlend vara til. Eins og fram kemur í beiðni Haga eru ostar framleiddir úr alls konar mjólk. Á Íslandi eru þeir búnir til nánast eingöngu úr kúamjólk. Ostarnir sem Hagar vilja fá að flytja inn eru ekki sambærilegir við neina osta sem eru framleiddir á Íslandi. Ekkert hefur frétzt af buffalabúunum, mjólkandi geitur á landinu eru örfáar og einhverra hluta vegna eru sauðfjárbændur hættir að færa frá og mjólka ærnar til að búa til ost úr mjólkinni. Það er því vandséð af hverju á að leggja ofurtolla á innflutta osta úr mjólk þessara dýrategunda. Sama á við í kjötinu. Fréttablaðið sagði frá því fyrir stuttu að verzlanir sem vilja selja lífrænt ræktaðan kjúkling fengju hann ekki hjá innlendum framleiðendum, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Finnur Árnason bendir á hversu fáránlegt þetta fyrirkomulag er. Ofurtollar eru lagðir á lífrænan kjúkling sem fluttur er inn frá útlöndum til að vernda framleiðendur sem eru ekki til í að fjölga kostum neytenda með því að rækta lífrænan kjúkling. Svipað á við um ýmsa villibráð, sem er ekki skotin á Íslandi. Landbúnaðarkerfið tollar kengúrukjöt í drasl, svo dæmi sé tekið. Til að vernda hvað? Fyrirfram, svona miðað við reynsluna síðustu áratugi, má gera ráð fyrir að svar atvinnuvegaráðuneytisins við beiðni Haga sé nei. En þó eru til nýleg fordæmi, sem benda til að jafnvel þar á bæ séu menn byrjaðir að átta sig á að kjöt sé ekki bara kjöt eða mjólk bara mjólk. Þannig voru tollar á nautakjöti lækkaðir þegar skortur var á því innanlands, þrátt fyrir að nægt framboð væri til dæmis af blessuðu lambakjötinu. Finnur Árnason vitnar líka til þess hvað ráðuneytið var dæmalaust lipurt við Mjólkursamsöluna þegar hún fékk að flytja inn írskt smjör til að fyrirbyggja vöruskort fyrir jólin. Einhver nefnd í ráðuneytinu fundar í lok vikunnar um beiðni Haga. En auðvitað er það atvinnuvegaráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem hefur síðasta orðið. Ætlar hann að standa með neytendum og hagsmunum þeirra eða halda áfram að tollvernda innlenda buffalabændur sem eru ekki til?